Þriðjudagur 3. mars 1998

62. tbl. 2. árg.

Hæstiréttur kvað í febrúar upp dóm um að lögmanni beri ekki skylda til að vera í Lögmannafélaginu. Var í dómnum kveðið upp úr með það að ekki megi skylda menn til að greiða fyrir fleira en lögboðin stjórnsýsluverkefni félagsins, en þar sem félagið gat ekki sundurliðað kostnaðinn við stjórnsýsluverkefnin annars vegar og önnur verkefni hins vegar telst það ekki geta krafið lögmanninn um aðild og greiðslu félagsgjalda. Jón Steinar Gunnlaugsson ritar ágæta grein um þennan dóm í  Morgunblaðið s.l. föstudag og segir þar m.a.: „Með dómi þessum er gengið einu skrefi lengra í átt til félagafrelsis en mannréttindastofnanirnar í Strassborg hafa gengið til þessa. Má segja að niðurstaða Hæstaréttar sé rökbundin afleiðing af úrlausnum þar ytra á þessu sviði, því skylduaðild að félagi, sem talin er réttlætast af stjórnsýsluverkefnum þess, hlýtur að leiða til þess að félagsmönnum sé óskylt að gerast þátttakendur í annarri starfsemi félagsins, sem með réttu tilheyrir frjálsum félögum.“

Eins og Jón Steinar bendir einnig á vekur þessi dómur upp spurningar um starfsemi verkalýðsfélaga sem neyða launþega til aðildar hvort sem þeim líkar vel eða illa. Það má til að mynda heita undarlegt í besta falli ef fólki telst skylt að taka þátt í byggingu sumarhúsa verkalýðsfélaga, að niðurgreiða líkamsrækt eða annað af því tagi. En stuðningur slíkra félaga við tiltekin pólitísk sjónarmið, t.d. með áróðursauglýsingum í dagblöðum og sjónvarpi og styrktarlínum í blöðum vinstri manna, ætti að útiloka að hægt sé að neyða launþega til þátttöku.
 

Cato stofnunin hefur sett á fót námskeið fyrir fróðleiksfúsa frelsisunnendur. Námið er heimanám með aðstoð Internetsins og er skipulagt með fólk í fullu starfi eða öðru námi í huga. Námskeiðið kostar 290 dali og fá þátttakendur 24 hljóðsnældur og sex bækur ásamt námsvísi. Eins og sést á námsskránni er um  mjög áhugavert námsefni að ræða en námskeiðið skiptist í tólf meginhluta:
1. The Ideas of Liberty
2. John Locke’s Two Treatises of Government
3. Thomas Paine’s Common Sense and Thomas Jefferson and the Declaration of Independence
4. Adam Smith’s The Wealth of Nations (Part I)
5. Adam Smith’s The Wealth of Nations (Part II)
6. The Constitution of the United States of America
7. The Bill of Rights and subsequent Amendments to the Constitution
8. John Stuart Mill’s On Liberty and Mary Wollstonecraft’s Vindication of the Rights of Woman
9. Henry David Thoreau’s Civil Disobedience
10. The Achievements of 19th-Century Classical Liberalism
11. The “Austrian” Case for the Free Market
12. The Modern Quest for Liberty

Þess má að lokum geta að það er Tom G. Palmer sem hefur umsjón með námskeiðinu en hann var samtíða Hannesi H. Gissurarsyni við nám í Oxford og hefur flutt erindi hér á landi.