Kristinn H. Gunnarsson, þingmaður Alþýðubandalagsins á Vestfjörðum, hefur lagt fram á Alþingi frumvarp til laga um að fasteignaskattar verði lækkaðir. Já lesendur góðir, LÆKKAÐIR. Ekki er algengt að Alþýðubandalagsmenn eða aðrir þeir þingmenn sem kenna sig við félagshyggju eða sósíalisma leggi fram tillögur af þessu tagi. Venjan hefur fremur verið sú, að þeir telji ástæðu til hækkunar skatta og hefur oftlega komið fram í málflutningi þeirra, að þeir telji skattalækkanir koma sér best fyrir „hina ríku“ en ekki gagnast „hinum fátæku“. Nú hefur Kristinn greinilega áttað sig á því að svo þarf ekki að vera.
Fjöldi fólks, sem ekki hefur mikið handa á milli, býr í eigin húsnæði og sumir jafnvel í nokkuð stóru húsnæði (t.d. eldra fólk sem býr eitt, er hætt störfum og þarf að lifa af lágum eftirlaunum). Þetta fólk þarf allt að borga fasteignaskatt óháð tekjum sínum, og getur í ýmsum tilvikum verið um umtalsverðar upphæðir að ræða. Ástæða er til fagna þeirri hugarfarsbreytingu sem felst í tillögu Kristins. Hvað útfærslu hans varðar þá virðast á henni ýmsir gallar, sem ástæðulaust er að fara út í hér. Mestu skiptir hins vegar að tillöguflutningur hans ætti að verða upphaf að málefnalegri umræðu um hvernig megi lækka fasteignaskattana með það fyrir augum að bæta lífskjör fólksins í landinu.
Þótt Alþýðublaðið, Tíminn og Þjóðviljinn komi ekki út lengur hafa íslenskir vinstri menn hafa ekki lagt árar í bát í blaðaútgáfu. Nýjasta afrek þeirra á þessu sviði ber nafnið Testamentið. VÞ hvetur lesendur sína til að ná sér í eintak og sjá það svart á hvítu að vinstri menn hafa ekki látið segjast. Járntjaldið féll en virðist hafa fallið á hausinn á sumum.
Í Testamentinu er heilsíðugrein þar sem reynt er að finna mun á nasisma og kommúnisma og þar segir: „Og fáar frásagnir eru til af kommum og nazistum í faðmlögum.“ Einmitt það.
Hvað ætli fasistanum Mússólíni, manninum sem árið 1912 tók við völdum í ítalska sósíalistaflokknum og krafðist þess að Marxisminn yrði rauði þráðurinn í stefnu flokksins, hefði þótt um þessa kenningu? Eða Lenín sem hrósaði ítölskum sósíalistum fyrir rétta stefnu í Pravda eftir valdatöku Mússólínis? Eða Stalín sem gerði griðarsamningana við Hitler og kommúnistar um allan heim urðu málsvarar Hitlers á einni nóttu? Til dæmis Maurice Thorez, formanni franska kommúnistaflokksins, sem á ögurstund útvarpaði frá Moskvu áskorun til franskra hermanna um að streitast ekki á móti innrásarherjum Hitlers. Eða Hitler sjálfum sem lét bæta orðinu „þjóðernissósíalismi“ við nafn þýska verkamannaflokksins sem hann sölsaði undir sig árið 1919?