Fimmtudagur 5. maí 2016

Vefþjóðviljinn 126. tbl. 20. árg.

Eins og þekkt er skrifuðu færri undir körfu Kára Stefánssonar um að 11% af vergri landsframleiðslu yrði framvegis varið til heilbrigðismála en hann hafði ætlað. Þó mun Kári hafa talið að þar væri „þjóðarvilji“ þótt mikill meirihluti þjóðarinnar hafi ekki skrifað upp á.

En það er engin ástæða fyrir Kára að leggja árar í bát eins og hann virtist gera er undirskriftirnar voru afhentar. Þar fór hann fram á að heilbrigðisþjónustan yrði „gjaldfrjáls“.

Nú er hluti útgjalda til heilbrigðismála fjármagnaður af notendum sem hefur ýmsa kosti í för með sér eins og aðhald á báða bóga. Heilbrigðisráðherra hefur nýlega lagt fram tillögur sem munu lækka verulega þann kostnað sem þeir sem mest þurfa á þjónustunni að halda bera en hækka á hina sem þurfa sjaldan að leita til læknis.

En með því að notendur greiði alls ekki fyrir heilbrigðisþjónustu er verið að lækka verulega framlög til heilbirgðismála og þar með minnkar þjónustan og menn fjarlægjast markmið Kára um 11%.