Þriðjudagur 3. maí 2016

Vefþjóðviljinn 124. tbl. 20. árg.

Indriði H. Þorláksson vildi að íslenskur almenningur yrði gerður ábyrgur fyrir Icesave aflandsreikningum Breta og Hollendinga.
Indriði H. Þorláksson vildi að íslenskur almenningur yrði gerður ábyrgur fyrir Icesave aflandsreikningum Breta og Hollendinga.

Indriði H. Þorláksson var einn af mönnunum á bak við Svavars-samninginn um Icesave. Samningurinn snerist um að leidd yrði í lög sérstök ríkisábyrgð á skuldum Landsbankans. Í raun var um að ræða eftir-á-ábyrgð því ef ríkisábyrgðin hefði verið til staðar við fall bankans hefði að sjálfsögðu ekki þurft ný lög um hana.

Indriði kom ekki aðeins að þessum fyrsta samningi um ríkisábyrgðina heldur tók hann virkan þátt í umræðunni um seinni samninginn og hefur tjáð sig reglulega um málið frá því það var staðfest fyrir dómi að engin ríkisábyrgð væri á skuldum einkabankans.

Í nýjustu grein sinni um málið á Kjarnanum segir Indriði:

Uppgjör á forgangskröfum er lokið og hefur þrotabú LBI borgað tryggðu Icesave innistæðurnar að fullu andstætt því sem margir trúa eftir tvær þjóðaratkvæðagreiðslur.

Þetta er furðuleg kenning, að fólkið sem hafnaði því í tveimur þjóðaratkvæðagreiðslum að þjóðnýta skuldir einkabankans haldi nú að bankinn hafi ekki greitt skuldirnar. Með atkvæði sínu vildi fólkið þó einmitt að bankinn sjálfur greiddi skuldir sínar en þeim væri ekki velt yfir á skattgreiðendur eins og Indriði barðist fyrir.