Vefþjóðviljinn 198. tbl. 19. árg.
Það vantar ekki að Þýskaland ber byrðar. Afar lengi enn munu þýsk stjórnvöld fá að heyra um illvirki Þjóðverja á fjórða og fimmta áratug síðustu aldar, ef þau hyggjast í nokkru máli taka skýra afstöðu sem nokkrum mislíkar. Fyrst komið þið á skriðdrekum, nú viljið þið að við borgum skuldir okkar, segja menn þegar önnur rök eru þrotin og lengi vel bogna Þjóðverjar undan byrði sögunnar.
Enda eru þær þungar. Margt af því sem Þjóðverjar gerðu öðrum á þessum árum var gert af nær ólýsanlegri grimmd. Þótt það hafi verið allt aðrir einstaklingar en nú ráða Þýskalandi, og næstum allir núlifandi Þjóðverjar séu persónulega saklausir, munu Þjóðverjar lengi verða minntir á þetta og lengi munu þeir lúta höfði og fallast á ósanngjarnar kröfur annarra, séu þær studdar slíkum röksemdum.
Eitt af því sem áróðursmenn nota talsvert nú, er að þýskar skuldir hafi verið felldar niður árið 1953. Því sé sanngjarnt að grískar skuldir nú fari sömu leið.
Hér er dregin upp mjög einföld mynd.
Á bak við skuldir Þýskalands höfðu verið gríðarlegar eignir. Þýskaland var orðið stórveldi. Eftir síðari heimsstyrjöldina var hins vegar ekkert eftir. Allt var í rúst. Göbbels fyrirfór sér og vildi láta brenna líkið svo það yrði óþekkjanlegt. Það strandaði á því að þeir gátu ekki safnað saman nægu bensíni.
Það stóð ekkert á bak við skuldir Þýskalands.
Þessi staða er ekki í Grikklandi. Gríska ríkið á raunverulegar eignir. Gríska ríkið fær raunverulegar tekjur. Í Grikklandi er raunverulegt atvinnulíf.
Þegar skuldir Þýskalands voru afskrifaðar var ekkert eftir til að ganga að.
Margir vilja hins vegar að grískar eigur verði ekki látnar upp í skuldir gríska ríkisins. Margir vilja ekki að raunverulegar álögur verði lagðar á Grikki til að borga skuldir ríkisins. Margir vilja að Grikkland verði áfram fullgildur notandi sameiginlegs gjaldmiðils, en opinberar skuldir landsins verði greiddar af skattgreiðendum í öðrum ríkjum. Þegar aðrir hika við þetta er byrjað að tala um þýska skriðdreka og þýska skuldaniðurfellingu.