Vefþjóðviljinn 119. tbl. 19. árg.
Það er misjafnt hvað fjölmiðlamenn vilja eltast við og hverju þeir hafa lítinn áhuga á.
Undanfarið hefur nokkuð verið fjallað um óánægju margra óperumanna með ráðningu nýs óperustjóra, en stjórn Óperunnar ákvað að ráða Steinunni Birnu Ragnarsdóttur í starfið.
Þarna fékk þó stjórnin að ráða þann sem hún vildi ráða.
Það hefur ekki alltaf verið þannig.
Árið 2012 bárust af því fréttir að stjórn Portusar hefði viljað ráða umsækjandann Þorgerði Katrínu Gunnarsdóttur í starf forstjóra tónlistarhallarinnar Hörpu. En þrátt fyrir þennan vilja stjórnarinnar var hins vegar Halldór Guðmundsson, kenndur við Mál og menningu, ráðinn í staðinn.
Um þetta sagði Vefþjóðviljinn meðal annars á sínum tíma:
Hvaða þýðingu hefði það haft í stjórnmálum ef Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir hefði verið ráðin í forstjórastarfið? Hún hefði hætt á þingi, en inn komið Óli Björn Kárason varaþingmaður. Af þingi færi Evrópusambandssinni en í staðinn kæmi andstæðingur aðildar Íslands að ESB, sem auk þess vakti athygli fyrir mjög skelegga stjórnarandstöðu þá mánuði sem hann sat á þingi í stuttu leyfi Þorgerðar Katrínar eftir útkomu skýrslu rannsóknarnefndar alþingis. …
Hverjum hefði slík breyting orðið í óhag? Hverjir höfðu hag af því að koma í veg fyrir að þetta gerðist?
Ættu fjölmiðlar ekki að kanna málið nánar? Hvers vegna réði stjórnin ekki þann umsækjanda sem hún sjálf vildi helst?
Fjölmiðlar höfðu ekki mjög mikinn áhuga á þessu máli.