Vefþjóðviljinn 123. tbl. 19. árg.
Á þessum vef hefur stundum verið vikið að því hvernig snjallir einstaklingar finna leiðir til að spara mönnum sporin og um leið eyrinn.
Netið og allt sem því fylgir er auðvitað nærtækasta dæmið. Ótal ferðir og snúningar eru úr sögunni vegna þess. Og ekki síður þreytandi biðraðir, hvort sem er við gjaldkerastúkuna í bankanum eða miðasöluna á völlinn.
Í samanburði við þetta frjálsa framtak eru tilburðir afskiptasamra stjórnmálamanna til að draga úr umferð – eða breyta umferð einkabíla í eitthvað annað þeim þóknanlegt – nánast hlægilegar ef ekki væri fyrir þann óheyrilega kostnað sem þeim fylgir oft. Rekstur strætisvagna fyrir skattfé er dæmi um mikinn kostnað en lítinn ávinning í þeim efnum.
Nýjasta tískan á þessu sviði eru viðskipti milli einstaklinga í gegnum nánast ósýnilegan millilið á netinu. Íbúðaskipti og útleiga húsnæðis eru nærtækasta dæmið. Íbúðir sem áður stóðu auðar í sumarfríi fjölskyldunnar eru nú nýttar af ferðalöngum frá öðrum löndum, hvort sem er gegn greiðslu eða skiptum. Oft fylgja bílar með í skiptunum.
Einn helsti kosturinn við íbúðaskipti af þessu tagi er að á venjulegum heimilum er allt til staðar, ólíkt því sem gerist á hótelherbergjum þar sem öryggishólf og straujárn eru merkustu innanstokksmunir. Fólk með börn sér jafnframt í því sérstaka kosti að skipta við annað barnafólk. Þá eru leikföng og annað áhugavert fyrir börn til staðar.
Sífellt berast nýjar fréttir af því að netið sé nýtt til að deila fleiri hlutum. Viðskiptablaðið sagði til að mynda frá því nýverið að fljótlega myndu bjóðast bílar til leigu í allt frá einni klukkustund við fjölmenna vinnustaði á borð við fyrirtækin við Höfðatorg.
Í þessum efnum sem fleirum er ágætt að stjórnmálamenn haldi sig til hlés og leyfi hlutunum að gerast „af sjálfu sér.“