Mánudagur 17. mars 2014

Vefþjóðviljinn 76. tbl. 18. árg.

Það er næstum fullkomlega hlægilegt að hlusta á dramatískar kenningar þingmanna vinstriflokkanna um að Sjálfstæðisflokkurinn gangi á bak orða sinna þegar þingmenn hans munu styðja þingsályktunartillögu um afturköllun inngöngubeiðni Íslands í Evrópusambandið. Sú afturköllin er hins vegar í fullu samræmi við afdráttarlausa stefnu flokksins sem samþykkt var á landsfundi og rækilega kynnt opinberlega. Þar var því beinlínis hafnað að gert skyldi „hlé“ á aðlögunarviðræðunum við ESB. Flokkur svíkur engin loforð þegar hann fylgir opinberum landsfundarsamþykktum, enda er þeim ekki breytt á kappræðufundum í sjónvarpi.

En það sem gerir ásakanir þingmanna vinstriflokkanna svo hlægilegar er að þeir sjálfir hafa aldrei séð neitt að þegar þingmenn Vinstrigrænna samþykktu að senda inngöngubeiðni í Evrópusambandið, tveimur vikum eftir að Steingrímur J. Sigfússon hafði margoft fullyrt fyrir kosningar að það kæmi ekki til greina. Þær fullyrðingar Steingríms voru í fullu samræmi við samþykktir hans eigin flokks, svo þeim gátu menn treyst í góðri trú. Hann meira að segja bætti því við, að jafnvel þó forystumennirnir reyndu að svíkja þetta þá myndi flokksráð Vinstrigrænna stöðva málið. Menn gætu verið alveg öruggir. Þetta væri ekki í boði.

Enda var það svo að í kosningunum 2009 ákvað fjöldi manns, sem aldrei hafði áður kosið VG, að kjósa þann flokk, vegna þess að honum væri best treystandi til að halda Íslandi utan ESB. Meira að segja Bjarni Harðarson, sem þá hafði áður boðað sérstakt framboð fullveldissinna, lýsti yfir stuðningi við Vinstrigræna. 

Hafi einhvern tíma verið svikin loforð í ESB-málinu þá var það gert þegar Samfylkingin og VG ákváðu, án þjóðaratkvæðagreiðslu, að Ísland sækti um aðild að Evrópusambandinu, tveimur vikum eftir kosningarnar 2009, eins og Viðskiptablaðið rakti í síðustu viku. En þeir sem nú þykjast bálreiðir vegna „svika“ Sjálfstæðisflokksins, „svika“ sem eru ekki meiri svik en svo að þau eru í fullu samræmi við opinbera stefnu flokksins, þeir eru mestu baráttumennirnir fyrir umsókninni sem fengin var fram með raunverulegum svikum.

Það eina sem væri hlægilegra en tilraunir þingmanna Samfylkingarinnar til að hræða forystu Sjálfstæðisflokksins frá því að standa við það sem landsfundur Sjálfstæðisflokksins lofaði kjósendum flokksins, væri ef einhverjum forystumanni Sjálfstæðisflokksins dytti í hug að láta fullkomlega fyrirsjáanlegt andóf vinstrimanna slá sig út af laginu eitt augnablik.