Vefþjóðviljinn 249. tbl. 16. árg.
Ríkisstjórnin hefur verið heppin með stjórnarandstöðu undanfarin ár. Þá sjaldan stjórnarandstaðan hefur raunverulega reynt að berjast, þá hefur hún alltaf misst þrekið. Allri baráttu stjórnarandstöðunnar hefur lokið með samkomulagi þar sem hún fær ekkert sem máli skiptir.
Þar skiptir eflaust máli að hvorugur stóri stjórnarandstöðuflokkurinn er heill og óskiptur í baráttunni. Vandamál Framsóknarflokksins er að í hverju einasta stóru máli munu einhverjir þingmenn hans greiða atkvæði með ríkisstjórnarflokkunum. Við það bætist að sumir þeirra, sem þó greiða atkvæði gegn ríkisstjórninni, segja engum frá því fyrr en við lokaafgreiðslu svo enginn veit fyrr en þá hvernig atkvæði þeirra fer. Það er ekki fallið til þess að efla baráttuþrek hinna.
Þetta er sjaldnar vandamál innan Sjálfstæðisflokksins, en þar er hið almenna sannfæringarleysi margra þingmanna meira vandamál. Það veldur því að margir þeirra sjá engan tilgang með raunverulegri baráttu gegn verstu málum ríkisstjórnarinnar. Eftir nokkurra daga baráttu örmagnast sumir þeirra, ekki síst þegar þau óvæntu tíðindi verða að lllugi og Guðmundur Andri skrifa gegn þeim og Samfylkingarmiðlarnir slá gagnrýninni upp.
Lýsandi dæmi um ástandið er að einungis einn þingmaður Sjálfstæðisflokksins, Birgir Ármannsson, greiddi atkvæði gegn öllum þremur Icesave-frumvörpum ríkisstjórnarinnar.
Undanfarið hafa spjót staðið á ríkisstjórninni vegna þess að ráðherra vinstristjórnarinnar var talinn hafa brotið jafnréttislög. Slík umræða er auðvitað mjög óþægileg fyrir stjórnmálamenn í flokkum sem sífellt segjast vera femínískur. Og hvað gerir Sjálfstæðisflokkurinn þá?
Jú, auðvitað skiptir hann út konu fyrir karl sem þingflokksformanni, og segir að engin sérstök ástæða sé fyrir breytingunni.
En kannski er skiljanlegt að þingmenn stjórnarandstöðunnar hafi ekki tíma til að berjast gegn ríkisstjórninni. Þeir munu margir hugsa fyrst og fremst um það núna hvernig þeir geti komist hjá því að leggja verk sín í dóm eigin flokksmanna í prófkjöri.