Vefþjóðviljinn 185. tbl. 16. árg.
Þeir eru góðir sigrarnir sem vinstri menn hafa.
Þegar í ljós kom í vetur að tekjur allra höfðu dregist saman undanfarin ár var því fagnað sem miklum sigri, með hefðbundnu undirspili frá Stefáni Ólafssyni prófessor í félagshyggju, þar sem tekjur hinna ríkustu höfðu dregist mest saman. Svona eins og fátækt fólk, sem nýlega er orðið enn fátækara, geti gert sér einhvern mat úr tapi hinna ríku. Líður einhverjum Íslendingi betur í hvert sinn sem nýr Breti eða Hollendingur missir vinnuna sína og hrapar í tekjum?
Í gær voru sagðar fréttir af því að allt væri á réttri leið í kauphöllinni því konum í stjórnum skráðra félaga hefði fjölgað. Því til sanninda var nefnt að konur væru nú 35% stjórnarmanna en aðeins verið 10% fyrir hrun. Einnig var nefnt að skráð fyrirtæki hefðu verið um 70 þegar mest var fyrir hrun en væru nú 13. Ef menn gefa sér að stjórnarsæti séu að meðaltali 5 þá sátu 35 konur í stjórnum fyrir hrun en 23 núna. Þetta er vafalaust mikill sigur fyrir vinstrimenn en hvernig ætli þær 12 konur sem misst hafa stjórnarsæti sín fagni þessu? Ætli þær njóti þess innilega því fleiri karlar hafi þó misst sætin sín?
Til að loka þessum sigurhring má svo nefna að Steingrímur J. Sigfússon taldi það helstu tíðindin og þar með sigur fyrir sig að minnihluti atkvæðisbærra manna greiddi Ólafi Ragnari Grímssyni atkvæði í forsetakjörinu á laugardaginn, þótt Ólafur hafi fengið meirihluta gildra atkvæða eða 52,8%. Í samtali við Vísi sagði Steingrímur:
Það sem mér finnst kannski mest umhugsunarefni er lítil kosningaþátttaka og sú staðreynd að það er auðvitað mikill minnihluti kosningabærra manna á bak við þann sem gegnir þessu embætti. Það er ekkert endilega æskileg staða. Ég held að það eigi að taka það til endurskoðunar að þegar fleiri en tveir eru í framboði þá sé kosið aftur á milli þeirra tveggja efstu þannig að að við fáum hreinni úrslit.
Sjálfur myndaði Steingrímur ríkisstjórn að loknum síðustu þingkosningum sem hafði aðeins tæp 44% atkvæðisbærra manna að baki sér. Ríkisstjórnarflokkarnir fengu jafnframt minna fylgi en Ólafur Ragnar fékk nú meðal þeirra sem nýttu atkvæðisréttinn. Óskaði Steingrímur eftir því að kosið yrði að nýju vorið 2009 til að fá „hreinni“ úrslit? Í kosningu til hins svonefnda stjórnlagaþings í nóvember 2010 var kjörsókn helmingi lakari en í forsetakosningunum á laugardaginn var. Steingrímur taldi umboð þeirra sem þar hlutu kjör svo hreint og fínt að hann skipaði þá í stjórnlagaráð eftir að hæstiréttur hafði úrskurðað kjörið ógilt.
Og hvernig ætlar Steingrímur að tryggja „hreinni“ úrslit en fengust á laugardaginn með því að láta kjósa á milli tveggja efstu? Ólafur Ragnar fékk meirihluta greiddra atkvæða og það er bara engin leið að tryggja að sá meirihluti yrði aukinn ef kosið væri á milli hans og Þóru Arnórsdóttur að nýju, hvað þá að kosningaþátttakan yrði meiri.