Fyrir nokkrum árum leiddi þingmaðurinn Guðmundur Hallvarðsson baráttu fyrir því að reglur um þjóðfánann yrðu rýmkaðar og fyrirtækjum heimilað að nota hann í auglýsingar og á umbúðir. Þetta baráttumál sitt leiddi Guðmundur til sigurs og nú er hann aftur kominn á fleygiferð. Nú hefur Guðmundur lagt fram þingsályktunartillögu þess efnis, að þjóðfáninn verði hafður áberandi inni í fundarsal Alþingis. Þetta er hin eðlilegasta tillaga, einkum þegar hún er skoðuð í samhengi við fyrra baráttumál Guðmundar. Eða hvar er stunduð meiri auglýsingamennska en einmitt í sölum Alþingis?
„Við viljum sjá það að leikskólarnir verði ókeypis“ var ein meginniðurstaðan af málþingi Félags íslenskra leikskólakennara í gær. Já, það kæmi sér vel. Fóstrurnar ynnu þar frítt, húsnæði leikskólanna risu af sjálfu sér og þyrftu ekkert viðhald. Rafmagn og hiti bærist svo af himnum ofan. Þá gætu leikskólarnir verið ókeypis. En þangað til að þessir dýrðardagar renna upp verða þeir ekki ókeypis. Þangað til verður rekstur þeirra kostnaðarsamur, hvort sem hann verður lagður á þá sem nota þjónustu leikskólanna eða einnig á hina sem gera það ekki.