Í slensk fjölmiðla- og stjórnmálaumræða er jafnan sjálfri sér lík.
Fyrir nokkrum dögum fundu menn út að þrotabú Landsbankans myndi sennilega hafa efni á því að borga allar forgangskröfur í búið og þar með kröfur vegna innstæðna á Icesave-reikningnum bankans. Íslenskir umræðuspekingar sáu þá þann fréttapunkt helstan, að deilurnar um Icesave hér á landi hefðu verið óþarfar.
Nú virðist til dæmis gleymt og grafið að samkvæmt síðasta Icesave-samkomulagi þá átti íslenska ríkið meðal annars að greiða hinum erlendu ríkjum tuttugu og sex milljarða króna í þegar áfallna vexti af láni sem íslenska ríkið hefði verið talið hafa tekið.
Þessir tuttugu og sex milljarðar króna hefðu fallið strax á ríkið ef Icesvave-samkomulagið hefði verið samþykkt í atkvæðagreiðslunni í apríl. Og ríkið hefði ekki fengið það endurgreitt, þótt þrotabú Landsbankans hefði um síðir getað greitt forgangskröfur á sig. Enginn nefnir einu sinni þessa tuttugu og sex milljarða nú. Nú þusa menn bara um að deilurnar um Icesave hafi bara verið óþarfar af því að þrotabúið muni ábyggilega eiga svakalega mikinn pening í framtíðinni.
Lengi verður munað hvílíkt axarskaft ríkisstjórnin og hluti stjórnarandstöðunnar gerði þegar þau börðust fyrir samþykkt síðasta Icesave-samkomulagi.
En einnig voru þau áberandi stjórnmálalmeðalmennin sem þögðu eins og steinar þegar baráttan stóð. Geta þau nokkru sinni kallað sig forystumenn í stjórnmálum? Með vandlegri þögninni um Icesave komu þau svoleiðis upp um sig.