Laugardagur 10. desember 2011

Vefþjóðviljinn 344. tbl. 15. árg.

Í hinni nýju bók Sigurðar Más Jónssonar Icesave samningarnir – afleikur aldarinnar segir frá því er ný samninganefnd Íslendinga undir forystu Lee Buchheit tók til starfa árið 2010 (bls. 190):

Eftir að samninganefndarmenn höfðu legið yfir málinu í nokkurn tíma ákváðu þeir að horfa sérstaklega á það hver væri raunverulegur vaxtakostnaður Breta og Hollendinga og greina þannig málið. Með þeim hætti var reynt að sjá hvaða kostnað viðsemjendur Íslendinga hefðu af fjármögnun sinni. Þar skipti mestu sú ákvörðun þeirra að greiða innstæðueigendum strax út þá fjármuni sem þeir höfðu átt inni á Icesave-reikningunum. Reglur innstæðutryggingarkerfisins kváðu á um að þrír mánuðir skyldu líða áður en greitt væri út. Þann frest mátti framlengja þrisvar þannig að allt að eitt ár gat liðið áður en innstæðueigendur fengu peninga sína samkvæmt reglum. Því hefði ekki átt að greiða þessa fjármuni út fyrr en í fyrsta lagi í október 2009. Þegar málið var skoðað nánar komst Buchheitnefndin að því að Bretar og Hollendingar byrjuðu ekki að bera neinn vaxtakostnað af samkomulaginu fyrr en um áramótin 2008 og 2009. Þeir höfðu hins vegar fengið framseldar kröfur innstæðueigenda og notuðu þær til að gera vaxtakröfu í búið frá 6. október 2008 til 22. apríl 2009, þegar hinn formlegi gjaldþrotadagur Landsbankans var. Buchheit-nefndin taldi að með því væru Bretar og Hollendingar að reikna sér bónus en ætluðu þó að innheimta íslenska dráttarvexti, sem þá námu 23,5%, fyrir allt tímabilið. Ekki var nóg með að ríkissjóður Íslands ætti að bera ábyrgð á skuldinni heldur gerðu Bretar og Hollendingar kröfu í þrotabú Landsbankans vegna hennar. Það var því skilningur íslensku samninganefndarinnar að krafan væri tvírukkuð. Svavars-nefndinni virðist hafa yfirsést þetta atriði en dráttarvextir af 700 milljarða króna kröfu í þrjá mánuði eru sem gefur að skilja há upphæð eða 42 milljarðar króna.  

En var þetta ekki bara einföld yfirsjón hjá Svavarsnefndinni sem enginn hafði komið auga á? Nei ef Steingrímur J. Sigfússon og Jóhanna Sigurðardóttir hefðu haft áhuga á að kynna sér hvað aðrir en Svavar og Indriði höfðu til málanna að leggja hefði aldrei verð reynt að koma því í gegnum Alþingi að Bretar högnuðust á eigin óðagoti við fall Landsbankans. 

Það gerir málið enn vandræðalegra að þeir dr. Jón Daníelsson og dr. Kári Sigurðsson höfðu bent á þetta strax í blaðagrein 11. júlí 2009. Þar sögðu þeir að Svavars-nefndin hefði átt að hafna þessum vöxtum afdráttarlaust. Þegar þarna var komið sögu kostaði það Buchheit-nefndina talsverð átök að vinda ofan af þessu. Sama átti við um margvíslegan kostnað vegna samninganna, samtals upp á tvo til þrjá milljarða króna. Þar virtust viðsemjendur Íslendinga einnig ætla að tvírukka, með því að fá ríkisábyrgð frá ríkissjóði Íslandi og gera um leið kröfu í búið. Buchheit-nefndin krafðist þess að fá framseldar kröfur ef samþykkja átti að yfirtaka þær.

Icesave samningarnir – afleikur aldarinnar fæst í Bóksölu Andríkis og kostar kr. 3.999 með heimsendingu.