Þriðjudagur 5. október 2010

278. tbl. 14. árg.

Í huga margra, ekki síst á vinstrikantinum, þá er Svíþjóð framsæknasta, mannúðlegasta og eitt lýðræðissinnaðsta ríki – eða „samfélag“ – sem finnst í heiminum. Slíkir menn ættu að kaupa sér far með Flugleiðum til Stokkhólms, kaupa sér þar egg og tómata og fara svo og henda því af öllu afli í konunginn, forsætisráðherra og biskupinn í Stokkhólmi. Sjá svo hvað gerist næst.

Á Íslandi er búið að venja suma á að það sé bara allt í lagi að fleygja öllu lauslegu í annað fólk, ef þeir sjálfir er bara nógu reiðir yfir „ástandinu“. Heilu stjórnmálaflokkarnir og álitsgjafarnir eru meira að segja bálreiðir yfir því að fólk, sem talið er hafa ruðst inn í alþingishúsið, slasað starfsmenn og stöðvað þingfund, sé yfirhöfuð ákært.

Þegar „mótmælasamkomur“ enda á því að bifreiðir eru skemmdar, lögreglumenn vankaðir og alþingishúsið nær óþekkjanlegt, þá margtyggja fjölmiðlamenn að „mótmælin“ hafi farið „að mestu friðsamlega fram“ og gæta þess vandlega að taka fram að „mikill meirihluti mótmælenda“ hafi verið „friðsamur“. Þá sjaldan að nokkur er handtekinn, þá velta fjölmiðlar fyrir sér hvort lögreglan hafi farið offari. Enda er hún að mestu hætt að handtaka nokkurn einasta mann.

En hversu friðsamur er fjöldinn? Það er ekki lengur eins og lætin í ofstopafólki þurfi að koma á óvart. Talsverður hópur manna mætir nú jafnan þar sem boðuð eru „mótmæli“, til þess eins að komast í hasar án þess að bera ábyrgð á neinu. Þessi „mikli meirihluti“ sem er svo friðsamur, hann veit vel hvað mun gerast þegar mikill fjöldi manna safnast saman til „mótmæla“. Óeirðamenn munu fá aðstöðu og skjól til að fá útrás fyrir ofstæki sitt. Hinn „friðsami meirihluti“ veitir honum þetta skjól. Hvað gerir hinn friðsami meirihluti til að hindra að „mótmælastaðan“ leysist upp í ófrið, skemmdarverk og hættuástand?

Ef einungis örfáir menn myndu mæta á Austurvöll og byrja að brjóta rúður í þinghúsinu og grýta bifreiðar og lögreglumenn, þá yrðu þeir auðvitað stöðvaðir. Því flestir átta sig á því að slík framganga er ólögleg, hversu óánægðir sem menn eru með stjórnvöld. En þegar mikill fjöldi manna kemur, þá hefst lögreglan ekki að heldur horfir upp á skemmdarfýsn og ofstæki. Ofstækismenn fá skjól og þeir ganga á lagið.