Þ að er ekki á hverjum degi sem menn boða endurkomu frelsandi fyrirbæris. Því síður einhvers sem aldrei fyrr hefur látið sjá sig. Þetta gerði þó Páll Hjaltason formaður skipulagsráðs Reykjavíkur í viðtali við Fréttablaðið um síðustu helgi. Páll „boðar endurkomu hins sjálfbæra þorps“. Og sjá.
Þótt Páll sé formaður skipulagsráðs í skjóli Besta flokksins virðist þessi boðskapur ekki vera grín. Það sem Páll á við með sjálfbæru þorpi er hverfi þar sem öll þjónusta er til staðar. Hann virðist telja að svo hafi þetta verið á árum áður. Þar til einkabíllinn ógurlegi kom til sögunnar. Svo gripið sé niður í fagnaðarerindið:
„Stærsta málið er að endurvekja þorpið sem sjálfbæra einingu, hverfið. Við eigum að hætta að hugsa út frá einstökum reitum og hugsa í hverfum í staðinn. Skapa samhengi ekki bara í götunni heldur í þorpinu. Hvað viljum við hafa í hverfi? Er það ekki skóli, heilsugæsla, sundlaug, og apótek til dæmis. Það vantar sárlega að koma tómstundum barna í göngufæri við heimilin. Verslun þarf að vera í hverfunum eins og var áður en einkabíllinn tók yfir,“ segir arkitektinn. Með þessu leysist mörg önnur vandamál. Umferð minnki þegar fólk þarf ekki að keyra borgina á enda eftir öllu: „Svo er þetta lýðheilsumál, að fólk gangi eða hjóli, en ekki síst samfélagsmál. Fólk á að geta farið á græn svæði í þorpinu sínu, það á að geta hist úti í búð og rætt málin, fólk á að geta kynnst nágrannanum. Þetta er límið í samfélaginu, sem hefur leyst upp síðustu áratugi.“ |
Er söknuður manna eftir hverfisverslununum ekkert blendinn? Þær höfðu takmarkað vöruúrval og við miklu hærra verði en stærri verslanir bjóða nú. Þær myndu sjálfsagt henta auðmönnum í 101 sem borða á veitingastöðum miðbæjarins flesta daga og þurfa ekki að gera hagkvæm stórinnkaup fyrir fjölskylduna einu sinni eða tvisvar í viku. Páll telur það hins vegar mikilvægara að menn hitti nágranna sína úti í búð. Jæja en menn tóku almennt meira úrval og lægra verð fram yfir spjall við nágrannana. Einkabíllinn gerði mönnum það vissulega mögulegt að fara í stórmarkaðina en hann er ekki beinlínis sökudólgur í þeim efnum. Páll talar einnig um að börn og unglingar þurfi að hafa tómstundir sínar í hverfinu. Hefur Páll enga hugmynd um hve fjölbreyttar tómstundir ungmenna eru orðnar? Ætlar hann að bjóða upp á skylmingar, golf, taekwondo, fiðluæfingar og samkvæmisdansa í göngufjarlægð frá öllum heimilum í borginni? Hið sama má segja um aðra þjónustu og sérverslanir.
Það var enginn neyddur til að kaupa sér bíl og renna við í Miklagarði á leiðinni heim í stað þess að labba út í Breiðholtskjör eða Ásgeir er heim var komið. Einkabílnum hefur ekki verið troðið upp á nokkurn mann. Þvert á móti er bæði bíllinn og notkun hans skattlögð á pari við þá vímugjafa sem ríkið leyfir.
Í samhengi við nýtt líf hverfanna þarf að efla almenningssamgöngur. Páli hugnast vel að hafa strætisvagna á forgangsakreinum en vill ganga lengra en reynt hefur verið svo sem á Miklubraut. Víða tíðkist að strætisvagnar stýri umferðarljósum og þurfi því sjaldnar að nema staðar. Páll er áhugamaður um að græn torg komi í stað bílastæða í miðbænum. Þar eigi að fækka bílastæðum og gera fólki erfiðara fyrir að vera með einkabíl: „Borg er bilið á milli húsanna, eins og Jan Gehl arkitekt segir, almenningsrýmið, þar sem kynslóðir mætast,“ segir Páll. |
Páll vill þrengja að einkabílnum því of mikið pláss fari undir gatnakerfið og bílastæði. Stundum tala menn eins og hér hafi engar götur verið fyrir daga einkabílsins og að allur kostnaður við gatnakerfi myndi hverfa ef bílum fækkaði um þriðjung eða helming. Sama fólkið og kvartar undir kostnaði við gatnakerfið lætur síðan leggja sérstakar brautir undir tóma strætisvagnana svo að bílstjórinn haldi áætlun. Sama fólkið sendir svo sérstakan ruslabíl heim til fólks eftir ruslinu úr bláu tunnunum. Trukkurinn ekur eftir sömu götunum og ruslabíllinn sem sækir hefðbundið sorp úr svörtu tunnunum. Fólk sem þykist andvígt bílum lætur tvo bíla sækja ruslið sitt í stað eins og fer svo sjálft á einkabílnum með þriðja ruslaskammtinn á gámastöðvar þaðan sem því er ekið í fjórða og jafnvel fimmta trukknum ef það er „duglegt að flokka“. Allur þessi akstur er sagður í þágu umhverfisverndar, svo þar með er það útrætt.
Græn svæði eru ágæt svo fremi borgin hafi ráð á að halda þeim við. Það hefur hún augljóslega ekki í dag. Og það er engin skortur á grænum svæðum í borginni. Hún er ekki aðeins umkringd grænum svæðum heldur skorin þvers og kruss af slíkum svæðum; Miklatúni, Laugardal, Fossvogi, Elliðaárdal. Við flest heimili í borginni eru stórir garðar. Sérstaklega er það áberandi við stór fjölbýlishús en þá garða notar ekki nokkur maður. Páll getur kynnt sér þetta með því að fara upp í Æsufell. Þar er skjólgott svæði sunnan við blokkirnar. Norðan þeirra eru bílastæði. Á bílastæðunum er jafnan meira líf en á græna svæðinu.
Það má líka velta því fyrir sér hvernig krafan um fleiri græn svæði rímar við kröfu sama fólks um þéttingu byggðar.
Það er mikið framboð af fólki með brennandi áhuga á skipulagsmálum um þessar mundir. Stundum virðist þó sem þessi áhugi á skipulagi borga sé dulbúin þörf fyrir að skipuleggja líf borgaranna. Hvernig þeir ferðast, hvar þeir versla, við hverja þeir spjalla, hvað þeir gera við ruslið sitt og þar fram eftir götunum.