„Ástæða þess að ég tel nær útilokað að Ingibjörg Sólrún fari fram til Alþingis er einföld. Skýrar yfirlýsingar hennar um hið gagnstæða í borgarstjórakosningunum í vor. Það eru ekki aðeins pólitískir andstæðingar sem vilji höggva í trúverðugleika hennar sem spyrja hvort þær yfirlýsingar standi ekki heldur einnig margt af harðasta stuðningsfólki hennar. Þessi spurning skiptir lykilmáli þar sem pólitískur styrkur Ingibjargar Sólrúnar byggist ekki síst á trúverðugleika.“ |
– Aðsend grein á miðopnu Morgunblaðsins, 7. september 2002. |
Ætli núverandi borgarstjóri haldi að einhver sé sammála henni? Eða ætli hún hafi bara hugsað sér að setja undir sig höfuðið og gefa dauða og djöful í þetta allt saman? Hún hefur þegar lýst því yfir að henni sé trúnaður við samstarfsmenn einskis virði og nú virðist hún hafa jafn miklar áhyggjur af eigin orðspori. Þetta er eiginlega óskiljanlegt, og skiptir þá engu hvort á málin er horft frá sjónarhóli stuðningsmanna eða pólitískra andstæðinga borgarstjórans í Reykjavík. Hvað ætli fari eiginlega fram í höfði Ingibjargar Sólrúnar Gísladóttur þessi misserin?
Þó Vefþjóðviljinn glotti yfirleitt þegar einhver æpir að pólitísk stórtíðindi hafi orðið, þá veit blaðið ekki hvaða orð önnur á að nota um þá staðreynd að fjórir af átta borgarfulltrúum R-listans hafa lýst því yfir að þeir líti svo á að Ingibjörg Sólrún Gísladóttir hafi með tiltækjum sínum í raun sagt sig frá embætti borgarstjóra. Og þar sem ólíklegt er að borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins treysti henni betur þá virðast í hæsta lagi fimm borgarfulltrúar af fimmtán styðja hana til starfsins. Og er þá Ólafur F. Magnússon reiknaður með henni.
Þegar borgarfulltrúar Framsóknarflokks og Vinstri hreyfingarinnar, græns framboðs, höfðu lýst því yfir að Ingibjörg Sólrún yrði að gera annað hvort, hætta við að bjóða sig fram til þings fyrir Samfylkinguna eða hætta að vera borgarstjóri í Reykjavík, þá brást Ingibjörg Sólrún við eins og henni virðist nú orðið einni lagið. Hún sagði efnislega að sig varðaði ekkert um skoðanir þessara svokölluðu samstarfsmanna sinna. Hún væri ákveðin í að bjóða sig fram til þings fyrir einn R-listaflokkanna í næstu þingkosningum (til gamans: á ekki að ákveða lista Samfylkingarinnar á félagsfundi í janúar? Eða geta einstakir félagar bara ákveðið að taka sér þar sæti?) hvað sem svokallaðir samstarfsmenn hennar segðu. Og þó þeir treysti henni ekki lengur sem borgarstjóra þá skipti það engu máli heldur. Hún ætli bara að sitja samt!
Þetta er allt með slíkum ólíkindum að mönnum fallast bara hendur. Og breytir þá engu hvort menn eru stuðningsmenn eða andstæðingar R-listans. Það vita það allir sem vilja vita að Ingibjörg Sólrún Gísladóttir hefur ítrekað heitið bæði samstarfsmönnum sínum og kjósendum í Reykjavík að fara ekki í framboð til alþingis vorið 2003. Hvort sem mönnum finnst að það hafi verið eðlilegt eða ekki af henni að gefa slík loforð þá breytir það því ekki að hún gaf þau. Fjöldi fólks kaus R-listann vegna þessara ítrekuðu loforða hennar og vegna þessara loforða börðust tveir stjórnmálaflokkar við hlið hennar og Samfylkingarinnar í vor undir merkjum R-listans. Það að neita þessu, það er slík yfirgengileg frekja gagnvart vitsmunum borgarbúa að það er á mörkunum að menn trúi sínum eigin eyrum þegar borgarstjórinn í Reykjavík mætir í viðtal eftir viðtal og reynir að gera nákvæmlega það.
Og það er ekki eins og það séu pólitískir andstæðingar R-listans eða Ingibjargar Sólrúnar sem harðast hafa haldið þessu fram. Allt þar til í fyrradag hefur meira að segja hún sjálf sagst vera „skuldbundin“ borgarbúum að fara ekki í framboð. Og ekki bara hún, heldur einnig hennar nánustu stuðningsmenn, hafa litið svo á að hún hafi gefið skýr loforð fyrir aðeins örfáum mánuðum. Loforð sem henni eru í dag einskis virði.
Hér að ofan var vitnað í grein sem birt var í Morgunblaðinu fyrir þremur mánuðum og þrettán dögum. Greinarhöfundur benti þar á að Ingibjörg Sólrún hefði í kosningunum í vor gefið „skýrar yfirlýsingar“ um að hún færi ekki í framboð til Alþingis. Hennar „harðasta stuðningsfólk“ spyrði hvort þær yfirlýsingar stæðust ekki, og væri það „lykilspurning“ um trúverðugleika hennar. Og hver var nú þessi greinarhöfundur? Hver telur það lykilatriði um trúverðugleika Ingibjargar Sólrúnar Gísladóttur hvort hún fer eða fer ekki í framboð til Alþingis að vori? Já hver er það? Það er nú bara Dagur B. Eggertsson, borgarfulltrúi R-listans, sérstaklega tilnefndur á framboðslistann sem fulltrúi Ingibjargar Sólrúnar Gísladóttur persónulega. Ætli nokkur samstarfsmaður hennar fari nær um þau loforð sem hún gaf hverjum sem heyra vildi í kosningabaráttunni í vor? Ætli nokkur samstarfsmaður hennar sé ólíklegri til að halla réttu máli henni í óhag?
Og nú hefur Ingibjörg Sólrún Gísladóttir með ógleymanlegum hætti svarað spurningunni sem Dagur B. Eggertsson taldi lykilspurningu um trúverðugleika hennar. Hvernig ætli Degi og félögum líki svarið?