Miðvikudagur 2. febrúar 2000

33. tbl. 4. árg.

Vegna stjórnarmyndunar í Austurríki hefur fréttamönnum orðið tíðrætt um það sem þeir kalla hægri öfgamenn. Að því er virðist eru hægri öfgamenn samkvæmt þessum fréttamönnum þeir sem eru hallir undir þjóðernissósíalisma, öðru nafni nasisma. Þetta er mjög villandi orðnotkun því þegar talað er um hægri menn er yfirleitt átt við frjálslynda menn sem andsnúnir eru miklum ríkisafskiptum. Það getur engan veginn farið saman að vera hægri maður í þeim skilningi og að vera þjóðernissósíalisti. Hinir síðarnefndu aðhyllast umfangsmikil ríkisafskipti, eins og sjá má af því að þeir eru kenndir við sósíalisma. Þessir svokölluðu hægri öfgamenn eru því í venjulegum skilningi orðanna miklu frekar vinstri menn en hægri menn. Þjóðernissósíalismi og annar sósíalismi eru greinar af sama meiði, en alls óskyldar því sem menn kalla hægri stefnu eða frjálslyndi.

Hugtakið hægri öfgamaður er því ónothæft í stjórnmálum og gerir ekkert annað en rugla fólk í ríminu. Nógu erfitt er oft á tíðum að fylgjast með umræðum um stjórnmál þó ekki sé verið að nota orð sem ekki eiga við. Hafi fréttamenn áhuga á að fjalla um mál með þeim hætti að þeir skiljist ættu þeir því að leggja hugtakinu hægri öfgamaður og taka upp rökréttara hugtak.

Sólveig Pétursdóttir dómsmálaráðherra lætur nú kanna hvort íslensk stjórnvöld geti fengið aðgang að skjölum austur þýsku leyniþjónustunnar STASI. Steingrímur J. Sigfússon þingmaður segir aðspurður um þetta í DV í gær: „Ég hef verið talsmaður þess að hreinsa kalda stríðið út en það þarf að gera það þannig að það sé jafnræði í því. Menn þurfa að meta þetta tímabil á hlutlægan og hlutlausan hátt en sarga ekki bara á því öðru megin.“ Steingrímur bætir svo við til frekari útskýringar að sér finnist jafneðlilegt að dómsmálaráðherra óski eftir skjölum frá Bandaríkjunum. Steingrímur leggur með þessum orðum sínum Bandaríkin annars vegar og fyrrum kommúnistaríki Austur-Evrópu og Sovétríkin hins vegar að jöfnu. Annars vegar er þó um að ræða lýðræðisríki og þjóð í varnarsamstarfi við Íslendinga. Hins vegar alræðisríki – risavaxnar fangabúðir þar sem milljónir manna týndu lífi – sem unnu að því leynt og ljóst að aðrar þjóðir rynnu inn í þessar sömu þrælabúðir. Þrátt fyrir þetta telur Steingrímur að ekki megi nú „sarga“ of mikið á þeim sem stjórnuðu og studdu þetta þrælahald.