Þ
Stefnuskrá VG 2009: Tiltekinn hluti þjóðarinnar (t.d. 20%) geti með undirskrift sinni átt frumkvæði að þjóðaratkvæðagreiðslum um öll stórmál. |
að er sagt að Ólafi Ragnari Grímssyni sé vandi á höndum vegna laga um ríkisábyrgð á skuldum einkafyrirtækis. En er það svo?
Árið 2004 neitaði Ólafur Ragnar að undirrita lög um takmarkanir á eignarhaldi á fjölmiðlum árið 2004 með það fyrir augum að fá um málið þjóðaratkvæðagreiðslu. Það var nýlunda sem fór ekki framhjá fólki. Ólafur Ragnar var endurkjörinn með þessar nýju áherslur í starfi forseta strax sama ár og síðar án mótframboðs árið 2008.
Við ákvörðun sína 2004 vísaði Ólafur Ragnar sérstaklega til þeirrar gjár sem væri milli þings og þjóðar. Skoðanakannanir hafa ítrekað sýnt mikinn meirihluta þjóðarinnar andvígan þessari ríkisábyrgð á skuldum þrotabúsins sem nú er verið að leiða í lög. Sömuleiðis hefur könnun sýnt að mikill meirihluti er fylgjandi því að forsetinn sendi málið í þjóðaratkvæði.
Rúmlega 30 þúsund manns skrifuðu árið 2004 undir áskorun á forsetann um að staðfesta ekki fjölmiðlalögin svonefndu. Hann varð við þeirri ósk. Nú hafa yfir 50 þúsund skrifað undir áskorun á hann vegna laganna um ríkisábyrgð á gríðarlegum skuldum einkafyrirtækis.
Í kosningastefnuskrám VG og Borgarahreyfingar síðastliðið vor mátti einmitt finna heitstrengingar um að tiltekinn hluti landsmanna gæti farið fram á þjóðaratkvæðagreiðslur:
Kosningaáherslur VG samþykktar á landsfundi í mars 2009 Aukið lýðræði – vegur til framtíðar. Lýðræðisumbætur Tryggjum að tiltekinn hluti þjóðarinnar (t.d. 20%) geti með undirskrift sinni átt frumkvæði að þjóðaratkvæðagreiðslum um öll stórmál eða krafist þingrofs og nýrra kosninga. Kosningastefna Borgarahreyfingarinnar 2009 |
Það er því engum vafa undirorpið að Ólafur Ragnar á stuðning í stefnuskrám VG og Borgarahreyfingarinnar, sem margir töldu helstu sigurvegara þingkosninga á síðasta ári. Þegar hafa yfir 20% atkvæðisbærra manna skrifað undir áskorun til forsetans um að synja lögunum staðfestingar. Í kosningastefnu VG er þess sérstaklega getið að þetta eigi við um „öll stórmál“. Forsetinn þarf því ekki að hafa áhyggjur af eftirákenningum um að mál er varða á einhvern hátt samskipti Íslendinga við önnur ríki eigi ekki erindi í þjóðaratkvæðagreiðslu.
Í vikunni greiddu tæp 48% þingmanna atkvæði með tillögu um að málinu yrði vísað í þjóðaratkvæði. Það er langt yfir þeim 30% þingmanna sem getið er í stefnuskrá Samfylkingarinnar að þurfi til að mál fari í þjóðaratkvæði.
Stjórnmálaályktun Samfylkingarinnar 2009 Nauðsynlegt er að breyta stjórnarskrá til að tryggja þjóðareign á sameiginlegum auðlindum, rétt almennings til þjóðaratkvæðagreiðslna og gera kleift að breyta stjórnarskrá með samþykki þings og þjóðar, án þingkosninga. Lýðræði og jafnrétti – stjórnkerfisumbætur |
Það er því ljóst að forsetinn á góðan stuðning við stefnumörkun sína frá 2004 í nýlegri stefnuskrá Samfylkingar. Stefnuskrá sem sett var í aðdraganda síðustu þingkosninga. Stefnuskrá sem hvetur til þess að „milliliðalaust lýðræði verði aukið verulega á kostnað fulltrúalýðræðisins“ og að tiltekinn hlutfallsfjöldi þjóðarinnar geti kallað eftir þjóðaratkvæðagreiðslu.
Í stefnuskrá Framsóknarflokksins frá vorinu 2009 segir einnig:
Kosningastefnuskrá Framsóknarflokksins 2009 Lýðræði og réttlæti fyrir okkur öll Við viljum að heimildir til þjóðaratkvæðagreiðslu verði auknar og oftar leitað beint til þjóðarinnar. |
Í landsfundarályktun Sjálfstæðisflokksins árið 2009 sagði:
Ályktun um réttarfars- og stjórnskipunarmál Landsfundur telur að setja skuli almenn lög um framkvæmd þjóðaratkvæðagreiðslna og þær lágmarkskröfur sem gera á um stuðning við mál á Alþingi og við þjóðaratkvæðagreiðslu. |
Þegar allir flokkar sem eiga fulltrúa á Alþingi hafa lagt fram stefnu um að auka vægi beins lýðræðis og stjórnarflokkarnir beinlínis sett fram tiltekin skilyrði um þjóðaratkvæðagreiðslur sem nú hefur verið fullnægt með afgerandi hætti, hver er þá vandi Ólafs Ragnars Grímssonar?
Það getur varla verið vandamál þegar stefnuskrár allra flokka, undirskriftir tugþúsunda manna og skoðanakannanir eru í samræmi við þá stefnu sem forsetinn markaði árið 2004.