G ylfi Magnússon hamast nú í því að telja borgurunum trú um að íslenska ríkið, það er að segja skattgreiðendur þess, myndi ráða við að greiða breska og hollenska ríkinu þær upphæðir sem á Ísland myndi falla vegna Icesave-ánauðarinnar.
Ekki veit Vefþjóðviljinn hversu háar þær fjárhæðir verða. Blaðið veit ekki, ekki fremur en nokkur annar og Gylfi Magnússon meðtalinn, hversu mikils virði þær verða, þær eignir Landsbankans sem ganga munu til að greiða eigendum Icesave-reikninga. Fyrrverandi stjórnendur bankans segja að þær ættu að duga, en þeir sögðu að vísu líka að bankinn færi ekki í þrot. Staðreyndin er einfaldlega sú að enginn, hvorki Gylfi Magnússon né nokkur annar, veit hversu miklar fjárhæðir munu falla á íslenska skattgreiðendur ef Icesave-ánauðin verður samþykkt. En þær geta orðið gríðarlega háar.
En Vefþjóðviljinn veit annað og það getur Gylfi Magnússon vitað líka. Það er að núverandi stjórnvöld kveinka sér sárlega á hverjum degi yfir vandanum í ríkisfjármálum, og það áður en nokkurt einasta pund hefur verið borgað vegna Icesave-ánauðarinnar. Stjórnvöld eru næstum ófáanleg til að skera niður ríkisútgjöld, og sá niðurskurður sem þó hefur verið boðaður er ótrúlega lítill, miðað við eyðsluna og útgjaldaaukninguna á liðnum árum. Hugmyndir þeirra Jóhönnu Sigurðardóttur og Steingríms J. Sigfússonar um að loka fjárlagagati, felast fyrst og fremst í auknum álögum á borgarana – eða „skattabreytingum“ eins og Jóhanna Sigurðardóttir, fréttastofa Ríkisútvarpsins og Morgunblaðið kalla skattahækkanir þessa dagana. Hvernig halda menn að þau myndu fjármagna greiðslur vegna Icesave-ánauðarinnar, ef það kæmi í þeirra hlut að sjá um það?
Forkólfar ríkisstjórnarinnar ganga um með sorgarsvip og tala jafnan með sem mestri dramatík um hið nær óyfirstíganlega verkefni sem þeim finnst blasa við sér, þegar niðurskurðurinn er í raun hlægilega lítill og gert er ráð fyrir gríðarlegum ríkisútgjöldum á næstu árum. Þau ætla meira að segja enn að halda áfram með byggingu tónlistarhússins. En á sama tíma og ráðherrarnir eru gráti nær yfir niðurskurðarþörfinni, kemur Gylfi Magnússon á hverjum degi í fjölmiðla og þingsal og segir að íslenska ríkið geti vel ráðið við að borga milljarðatugi á milljarðatugi ofan, í erlendum gjaldeyri, til annarra ríkja, og virðist stundum ná að reikna sig til þeirrar niðurstöðu með því að ætla allar útflutningstekjur landsins til þess verkefnis – sem er auðvitað útilokað nema menn hyggist með öllu hætta innflutningi vara til landsins.
En fjölmiðlar spyrja Gylfa Magnússon sjaldan gagnrýnna spurninga. Hann er nefnilega „ópólitískur ráðherra“, sem er svipað hugtak og kaldur eldur. Fjölmiðlamönnum er meira að segja flestum sama um það hvort Gylfi fer með vísvitandi ósannindi í opinberum yfirlýsingum. Ætli þeir myndu sýna hugsanlegum ósannindum annarra stjórnmálamanna sama áhugaleysi, mennirnir sem tala oft um að hlutverk sitt sé að „veita stjórnvöldum aðhald“, „efast um allt“ og vera „alltaf í stjórnarandstöðu“?