17. febrúar 1997: Dýrasti ríkisstarfsmaðurinn, Ólafur Ragnar Grímsson,…
var í kóngaleik á okkar kostnað í Noregi í síðustu viku og sendi landmönnum, sem sátu sveittir yfir skattaskýrslunum, reglulegar kveðjur í útvarpi og sjónvarpi, hvað allt væri nú einstakt og stórkostlegt hvar sem hann kæmi. Ekki var laust við að þessar kveðjur og skattaskýrslan vektu upp minningar um orð þessa fyrrverandi Skattmanns þess efnis að forsetinn eigi að lúta sömu skattareglum og aðrir landsmenn en eins og er nýtur hann skattleysis. Raunar voru allir forsetaframbjóðendurnir þessarar skoðunar þótt síðar heyrðist muldrað að þeir ættu að fá endurgreiddan virðisaukaskatt af kostnaði við kosningabaráttu. Alþingi verður varla skotaskuld úr því að efna þessa ósk forsetans. Færi þó enn betur á því að leggja þetta tildurembætti niður.
17. febrúar 1997: Og meira af ferðalögum, Ólafs Ragnars Grímssonar,…
en skömmu eftir að hann tók við embætti (sem var auðvitað 1. ágúst sama dag og landmenn fengu álagningarseðlana senda) heimsótti hann ónefnt landsbyggðarkjördæmi. Heimamenn létu prenta dagskrá vegna heimsóknarinnar. Síðasti liður dagskrárinnar hljómaði svo:,,Að lokum verður farið með forsetann í stórgripasláturhúsið þar sem hann verður kvaddur.“