E nn hefur enginn fréttamaður spurt Jóhönnu Sigurðardóttur hvers vegna í ósköpunum hún hafi rokið í fjölmiðla með bréfasendingar sínar til seðlabankastjóra. Hún hefur síðan sagt íslenskum fjölmiðlum að hún hafi veitt bankastjórunum lengri frest til svara, en utan landsteina veit það enginn. Dettur einhverjum, sem ekki vinnur á fréttastofu, að það hafi verið með hagsmuni Seðlabanka Íslands eða íslenska ríkisins í huga sem forsætisráðherra ákvað að heyja þetta stríð í gegnum fjölmiðla? Að minnsta kosti spyr enginn fjölmiðlamaður hvers vegna ráðherrann hafi ekki haldið þessum bréfaskrifum sínum utan við kastljósin, að minnsta kosti þangað til svör hefðu borist, svona úr því hún taldi svona skrif bæði réttlætanleg og áríðandi. Enginn spurt.
F yrir nokkrum vikum hélt hver álitsgjafinn á fætur öðrum því fram að það yrði þegar í stað að rjúfa alþingi og kjósa að nýju. Skýringin sem gefin var á því, var sú að vegna hinna miklu tíðinda í efnahagslífinu hefðu þingmenn misst umboð sitt og yrðu að „leita nýs umboðs hjá þjóðinni“ áður en þeir tækju til við að stjórna.
Gott og vel, þetta er sjónarmið. En það er alveg magnað, að margir þeirra, sem hæst höfðu um að alþingismenn hefðu misst umboð sitt, virðast nú ekkert sjá því til fyrirstöðu að sömu „umboðslausu“ þingmenn ætli sér nú að keyra allskyns grundvallarmál í gegnum þingið, umræðulítið á örfáum dögum. Þeir ætla að breyta stjórnarskránni, þeir ætla að breyta kosningareglum, það á að bylta seðlabanka landsins, ný minnihlutastjórn flæmir nú embættismenn úr starfi og þannig mætti áfram telja. Og allt láta þeir sér vel líka, álitsgjafarnir og baráttumennirnir sem fyrir örfáum vikum töldu alþingismenn umboðslausa. Það er eins og við það að Sjálfstæðisflokkurinn hafi farið úr ríkisstjórn hafi þingmenn skyndilega öðlast umboð til að gera hvað sem var, án þess auðvitað að leita neins „umboðs frá þjóðinni“, enda sennilega óþarft að spyrja þá óskilgreindu persónu neins, þegar menn búa svo vel að eiga ráðherra í minnihlutastjórn sem ekki hika við að tala fyrir persónulegum baráttumálum sínum í hennar nafni.
Minnihlutastjórnin fékk samþykki Framsóknarflokksins til að sitja í nokkrar vikur fram að kosningum. Það samþykki virðist nú eiga að teygja til allskyns baráttumála vinstriflokkanna, sem fæst hafa nema í mesta lagi óbeina tengingu við núverandi efnahagsástand eða „vanda heimilanna“. Þó blasir það við, að flestar þær breytingar, sem minnihlutastjórnin stefnir að, eru þess eðlis að það er fullkomlega óeðlilegt að 80-daga minnihlutastjórn standi í þeim á síðustu dögum fyrir kosningar. Í grundvallarmálum á að vera samfella og eins lítið rask og nauðsyn krefur. Ef þjóðarhagur réði raunverulega för, myndu slík mál að sjálfsögðu látin bíða þar til eftir kosningar, þegar kjósendur hafa kveðið upp sinn dóm og við hefur tekið ríkisstjórn og þingmeirihluti sem gæti setið í fjögur ár, en ekki áttatíu daga.