Helgarsprokið 5. október 2008

279. tbl. 12. árg.

Í kjölfar hríðversnandi efnahagsástands í heiminum, sem Ísland fer ekki varhluta af, viðra sífellt fleiri talsmenn Evrópusambandsaðildar þá hugmynd að landið gangi í sambandið. Af tali þeirra mætti ráða að öll landsins, ef ekki heimsins vandamál, muni leysast gangi landið embættismönnum í Brussel á vald. Það er vissulega orðum aukið ef ekki hrein fásinna. Það er ljóst að aðsteðjandi vandi verður ekki leystur með ósk um ESB-aðild. Umsóknarferlið tekur mánuði ef ekki ár og þá fyrst er hægt að velta fyrir sér aðild að evrusamstarfinu. Raunar er það svo að fyrir Alþingi liggur fjármálafrumvarp sem gerir ráð fyrir 60 milljarða króna halla. Verði það samþykkt þá gengur það gegn einu af frumskilyrðum þátttöku í evrunni en samkvæmt sáttmálanum má halli ríkisfjármála ekki vera meira en 3% af landsframleiðslu. Að minnsta kosti gilda þessar reglur fyrir öll smáríki í sambandinu, enda eru þau áhrifalaus, en eins og Vefþjóðviljinn benti á hér þá gilda auðvitað allt aðrar reglur í þessu eins og öðru hjá ESB þegar um stóru ríkin ræðir.

Að taka upp evruna yrði mjög dýru verði keypt. Ef Ísland átti einhvern tíma möguleika á að taka hana upp án aðildar að ESB þá hefur dregið mjög úr líkunum á því undanfarið. Því þyrfti landið væntanlega að gerast aðili að sambandinu vilji það taka upp evru. Það hefði í för með sér eins og Vefþjóðviljinn hefur bent á hér að örríkið Ísland yrði nánast valda- og áhrifalaust í samstarfinu. Það hefði jafnframt í för með sér að Ísland gengi sambandi á hönd þar sem lýðræðishallinn er slíkur að ESB uppfyllir ekki einu sinni sjálft þau skilyrði sem það gerir til aðildarríkjanna um lýðræðislega stjórnarhætti eins og fjallað hefur verið um hér.

„Og þá segja talsmenn ESB-aðildar að einmitt varðandi sameiginlega sjávarútvegsstefnu ESB geti Íslendingar skipt miklu máli. Íslendingar hafi svo mikla þekkingu og reynslu af sjávarútvegi, eins og það sé algerlega einstakt í ESB, og því getum við haft mikil áhrif á mótun nýrrar sjávarútvegsstefnu sambandsins. Það er hins vegar auðvitað eins og hver önnur firra. Örríkið Ísland mun vissulega nánast engin áhrif hafa á mótun nýrrar stefnu í málaflokknum. Ekki frekar en Danir sem lýst hafa óánægju með kerfið..“

Talsmenn ESB-aðildar hafa að undanförnu reynt að sannfæra almenning um að Ísland gæti samið um þá þætti sem skipta landið mestu máli í aðildarviðræðum. Landið gæti fengið undanþágur varðandi hin og þessi ákvæði og er þá gjarnan vísað til fjögurra undanþága sem Danir fengu í svokölluðum Edinborgarsáttmála árið 1992. En það snerist auðvitað um álitshnekki sem vofði yfir ESB eftir að aðildarríkið Danmörk hafði í þjóðaratkvæðagreiðslu hafnað Maastrichtsáttmálanum sama ár. ESB varð að fá Dani til að samþykkja sáttmálann í megindráttum að minnsta kosti. Niðurstaðan var af klassískum skóla Evrópusambandsins, að láta kjósa þar til ásættanleg niðurstaða ESB-elítunnar fékkst. Því var gerður sérsamningur við Dani, þeir fengu 4 undanþáguákvæði og var það síðan borið undir þjóðaratkvæðagreiðslu undir nýju nafni.

Ísland fengi engar slíkar undanþágur enda ESB enginn þvílíkur akkur í að fá landið í ESB. Auk þess ber á það að líta að ekki er eins auðvelt að fá undanþágur í dag og áður. Enginn skortur hefur verið á löndum undanfarið sem óskað hafa eftir aðild. Aðildarlöndum hefur líka fjölgað mjög frá því 1992 og þurfa því sífellt fleiri að samþykkja aðildarumsóknir og samninga sem um þær gilda..

En talsmenn ESB-aðildar halda því ekki bara fram að Ísland geti fengið undanþágur frá hinum og þessum ákvæðum og sviðum sambandsins heldur á Ísland að geta skipt öllu máli í mótun stefnu sambandsins. Sem dæmi um þetta hafa ýmsir nefnt, að sjávarútvegsstórveldið Ísland eigi að geta haft mikil áhrif á mótun nýrrar sjávarútvegsstefnu sambandsins. Rökin eru að það sé mikill pólitískur vilji innan sambandsins til að móta nýja sjávarútvegsstefnu enda hafa í fjölda ára flestir verið sammála um það að sjávarútvegsstefna sambandsins sé handónýt. Ástæðan fyrir því að ekki hafi gengið að móta nýja stefnu í málaflokknum sé sú, að ekki hafi náðst pólitísk eining um hvernig ný stefna eigi að vera. Hér muni Ísland koma inn í myndina og geta haft gífurleg áhrif. Einmitt, saga sambandsins sýnir svo ekki verður um villst að smáríki hafa gífurleg áhrif á stefnumótun ESB svo ekki sé talað um örríki.

Það er öruggt að með aðild að ESB yrði Ísland aðili að sameiginlegri sjávarútvegsstefnu sambandsins. Landið fengi þar engar undanþágur sem máli skipta. Þar með myndi forræði sjávarútvegsmála flytjast frá Íslandi til embættiskerfisins í Brussel. Eitt af því sem fylgir henni er að íslenskir sjómenn yrðu skyldaðir til að fleygja gífurlegu magni fisks í hafið, en það er vitað að nánast allur fiskur drepst við brottkast. Þannig kom það fram í frétt í Viðskiptablaðinu á þriðjudaginn var að sjómenn í Skotlandi neyðast til að fleygja fiski fyrir um 7 milljarða króna á ári sem þeir hafa ekki kvóta fyrir vegna reglna Evrópusambandsins. Fyrir hvern þorsk sem skoskir sjómenn landa er öðrum hent.

Og þá segja talsmenn ESB-aðildar að einmitt varðandi sameiginlega sjávarútvegsstefnu ESB geti Íslendingar skipt miklu máli. Íslendingar hafi svo mikla þekkingu og reynslu af sjávarútvegi, eins og það sé algerlega einstakt í ESB, og því getum við haft mikil áhrif á mótun nýrrar sjávarútvegsstefnu sambandsins. Það er hins vegar auðvitað eins og hver önnur firra. Örríkið Ísland mun vissulega nánast engin áhrif hafa á mótun nýrrar stefnu í málaflokknum. Ekki frekar en Danir sem lýst hafa óánægju með kerfið. Það er raunar skemmst frá því að segja að þrátt fyrir að almennt sé einhugur um að gallar séu á núverandi sjávarútvegsstefnu sambandsins og gagnrýnin á hana hafi verið veruleg úr ýmsum áttum í fjölda ára, þá var niðurstaða sjávarútvegsráðherra sambandsins í síðustu viku sú að halda kvótakerfi þess óbreyttu. Ekki vegna þess að það væri svo gott sum sé, heldur af því að menn geta ekki orðið ásáttir um nýtt fyrirkomulag. Gæfulegt það!

Nei, Íslendingar verða að átta sig á því, hvað sem fyrrum upplýsingafulltrúar ESB á Íslandi og núverandi lektorar við háskólann í Reykjavík og Bifröst halda fram, að ákveði menn að sækja um ESB-aðild, þá mun landið sára sáralítil áhrif hafa á mótun nýrrar stefnu sambandsins komi til þess að hún verði mótuð og menn verða jafnframt að átta sig á því að langlíklegast er að sjávarútvegsstefnan verður óbreytt um langa hríð.