Þriðjudagur 3. júlí 2007

184. tbl. 11. árg.

Þ að er full ástæða til að klóra sér í kollinum yfir því að þrátt fyrir ýmsar skattalækkanir á undanförnum árum hefur hlutur hins opinbera í þjóðarkökunni stækkað. Ríki og sveitarfélög taka stærra hlutfall vergrar landsframleiðslu til sín en nokkru sinni. Þetta var megin umfjöllunarefni skýrslunnar Sneið til stjórnvalda sem Andríki sendi frá sér í síðasta mánuði þegar sama hlutfall (47%) ársins var liðið.

Árið 1987 tók hið opinbera 36% þjóðarkökunnar. Síðan hefur kakan (verg landsframleiðsla) stækkað um 64%. Þótt kakan hafi stækkað svo hressilega telur hið opinbera sig engu að síður þurfa stærri hluta af henni en áður. Hvernig má það vera að hið opinbera þurfi stærra hlutfall af stærri köku? Litlar sögur hafa borist af því að þjónustan sem ríki og sveitarfélög buðu landsmönnum upp á árið 1987 hafi verið léleg. Því hefur meira að segja verið haldið fram að ríkisstjórnir síðustu ára hafi „rústað velferðarkerfinu“ og skorið niður á báða bóga. Þessar tölur segja allt aðra sögu.

Þjóðarkakan var ekkert rosalega stór árið 1987…

…en svo stækkaði kakan myndarlega á næstu tveimur áratugum…

…og þá tók hið opinbera meira af henni!

Þessar myndir skýra það vonandi fyrir einhverjum hve ríki og sveitarfélög hafa þanist út á síðustu 20 árum þrátt fyrir að margt hafi verið gert til að halda aftur af vextinum. Hvorki þær skattalækkanir sem vissulega hafa átt sér stað né einkavæðingin hafa haldið í við ný verkefni á borð við tónlistarhús, fæðingarorlofssjóð, ný sendiráð, íþróttahallir og skógræktarátak í hverju kjördæmi svo nokkur dæmi séu nefnd.

Það eina sem dugar til að stöðva þessa þróun eru verulegar skattalækkanir en ekki skattahækkanir eins og urðu um síðustu áramót þegar lögfest lækkun tekjuskatts einstaklinga var dregin til baka.