S tjórnendur útvarpsþáttarins Í bítið á Bylgjunni spyrja viðmælendur sína oft ágætra spurninga. Þau setja sig oftar en flestir íslenskir fjölmiðlamenn í spor neytenda og greiðenda fremur en framleiðenda og eyðenda. Í fyrradag var Gísli Marteinn Baldursson borgarfulltrúinn viðmælandi þeirra og var spurður hvort menn hefðu nokkuð upp úr því að tala um „aðrar lausnir“ þegar ljóst væri að flestir íbúar höfuðborgarsvæðisins hefðu kosið að fara um á bíl. Borgarfulltrúinn taldi það ekki vonlaust þótt nokkrar vöflur kæmu á hann. Hann sagði jafnframt að bæta þyrfti gatnakerfið með því að setja það í stokka. En til hvers að setja bílaumferðina í stokk? Það setur enginn það fyrir sig að fara ofanjarðar í bíl um borgina. Hins vegar treysta fáir sér til að ganga eða hjóla ofanjarðar í hefðbundnu íslensku vetrarveðri eða lágþrýstisumri. Borgaryfirvöld hafa meira að segja sagt það hættulegt að vera á ferli utandyra vegna svifryksmengunar í vetrarstillum en hvetja þó borgarbúa sérstaklega til að nýta aðrar lausnir á slíkum dögum.
Er þá ekki eðlilegra að setja göngu- og hjólastígana í stokka? Það er að vísu ódýrara en að setja göturnar í stokk svo líklega munu borgaryfirvöld aldrei hugleiða þann kost.
Og ef menn ætla á annað borð að grafa göng fyrir bílana, er þá ekki eðlilegast að byrja á því að grafa nýjar leiðir í stað þess að grafa þær götur sem þegar eru til staðar í jörð? Það hefur að vísu þann galla að liðka fyrir umferð einkabílsins svo að það þýðir ekki að nefna það við borgaryfirvöld. Stjórnmálamenn sem banna öðrum en tómum strætisvögnum að fara um ákveðnar akbrautir eru ekki líklegt til að vilja liðka fyrir umferð einkabílsins.
Í bítið á miðvikudaginn var einnig rætt við Björgvin G. Sigurðsson ráðherra viðskipta en ekki iðnaðar. Talið barst að vörugjöldum og taldi ráðherrann að brauðrist bæri há vörugjöld en samlokugrill ekki. Auðvitað er ekki hægt að gera kröfu um að ráðherra þekki slík þjóðkunn dæmi eftir aðeins þrjá mánuði í starfi og geti gert grein fyrir þeim í útvarpi. Björgvin var einnig spurður hvort ekki stæði til að lækka tekjuskatt. Ráðherrann átti ekki í vandræðum með að lýsa draumum sínum í þeim efnum. Hann sagðist vilja sjá há skattleysismörk og flata skattprósentu. „Í framtíðinni myndi ég vilja sjá það þannig.“ Á Íslandi eru einhver hæstu skattleysismörk í heimi og á tekjur umfram það er lögð flöt skattprósenta.
Björgvin upplýsti einnig að þegar núverandi ríkisstjórn tók við hefðu fjárlög verið komin fram að miklu leyti. Það sem ráðherrann á væntanlega við er að vinna við fjárlagafrumvarp næsta árs var auðvitað hafin fyrir kosningar. Ný ríkisstjórn hefur hins vegar allt það svigrúm sem þarf til að breyta frumvarpinu enda sjö mánuðir frá því hún tók við og til áramóta. Skattgreiðendur eiga ekki von á góðu ef það er álit ráðherra í hinni nýju ríkisstjórn að allt sem einu sinni hefur ratað í fjárlagafrumvarp eigi heima þar að eilífu – sé þegar fram komið.