T ekjuskipting og fátækt hefur verið ýmsum fjölmiðlum ofarlega í huga síðustu misseri og ár, eða að minnsta kosti frá því Stefán Ólafsson prófessor hóf opinbera herferð sína fyrir stjórnarandstöðuna vegna þingkosninganna árið 2003. Fjölmiðlar hafa flestir verið ósparir á viðtöl við fyrrnefndan Stefán og umfjöllun um hæpnar kenningar hans með forsíðufréttum og langhundafréttaskýringum.
![]() |
Minni áhugi er á rannsókn sem sýnir að tekjuskipting almennings hefur ekki breyst hér á landi í rúman áratug, en á hæpnum fullyrðingum um „aukna misskiptingu“. |
Eitt af því sem fjargviðrast hefur verið yfir er að svo kallaður Gini-stuðull sé ekki lengur reiknaður út fyrir tekjudreifingu hér á landi, en sá stuðull á að sýna hversu jöfn eða ójöfn skiptingin er. Líklega til að svara þessu ákalli um útreikninga á tekjudreifingunni hefur prófessor við hagfræðideild, Ragnar Árnason, reiknað hana út og hvernig hún hefur þróast. Ragnar, sem er einn af frumkvöðlum slíkra útreikninga hér á landi, hefur greint frá niðurstöðum sínum. Niðurstöðurnar eru afar sláandi, en þá ber svo við að áhugi fjölmiðla á tekjuskiptingu í landinu hefur skyndilega snarminnkað.
Hljóðvarp og sjónvarp ríkisins og annarra virtust í gær að minnsta kosti ekki hafa áhuga á að fjalla um niðurstöður Ragnars. Fyrir utan Morgunútvarp ríkisins að vísu, sem ræddi við hann. Þetta er þó sagt með þeim sjálfsagða fyrirvara að Vefþjóðviljinn heyrði ekki hvert orð sem mælt var í þeim miðlum í gær og að þeir kunna að taka sig á í dag. Dagblöðin fjalla einnig mun minna um málið en efni standa til. Dagblaðið Blaðið hefur ekki enn frétt af rannsókninni, enda upptekið af því að segja frá áliti á spá um viðskiptahalla í aðalfrétt á forsíðu. Morgunblaðið stendur sig betur og er með frétt um málið á blaðsíðu sex í dag, sem þó verður að teljast í minnsta lagi miðað við gríðarlegan áhuga blaðsins hingað til á málefninu. Fréttablaðið gerir betur og setur fréttina fram á blaðsíðu fjögur í gær, en jafnvel sú staðsetning gerir lítið úr fréttinni miðað við tilefnið og fyrri umfjöllun fjölmiðla um sambærilegt efni.
Hver skyldi nú skýringin vera á því að niðurstöður rannsókna Stefáns Ólafssonar félagsfræðiprófessors fá svo miklu meiri athygli en niðurstöður rannsókna Ragnars Árnasonar hagfræðiprófessors, þegar kemur að útreikningum í tengslum við tekjur fólks? Ætli fréttamönnum þyki líklegt að Ragnar kunni síður að reikna en Stefán? Nei, ólíklegt er að nokkrum manni detti það í hug, en hver ætli skýringin sé þá?
Vefþjóðviljinn veit ekki hvers vegna rannsóknum Stefáns er hampað en rannsóknum Ragnars ekki, sér í lagi þegar Ragnar er með rannsókn sinni beinlínis að svara ákalli um útreikninga Gini-stuðulsins. Vonandi tengist dauflegur áhugi þó ekki því að niðurstöður Ragnars eru allnokkuð frábrugðnar niðurstöðum Stefáns. Niðurstöður Ragnars sýna nefnilega, ólíkt því sem ítrekað hefur verið haldið fram í umræðunni hér á landi, að launatekjum hér á landi er ekki ójafnar skipt en áður. Ragnar hefur rannsakað gögn um þetta aftur til ársins 1993 og fær út að tekjudreifingin er nánast óbreytt allt tímabilið. Öll sú „aukna misskipting“ sem mörgum er tamt að ræða hér á landi er samkvæmt niðurstöðum Ragnars lítið annað en hugarburðurinn einn. En það er vitaskuld ekki niðurstaða sem hentar að segja um of frá þegar búið er að fjasa mikið um að stórir hópar hafi setið eftir og einskis notið af góðærinu. Þá er betra að lítið fréttist að fjasið átti ekki við rök að styðjast, svo hægt sé að taka upp þráðinn á nýjan leik þegar nær dregur kosningum.
Á forsíðu Morgunblaðsins í dag er haft eftir Margréti Sverrisdóttur fyrrverandi framkvæmdastjóra Frjálslynda flokksins að með framboði sínu til varaformanns flokksins sé hún „að rétta fram sáttahönd“. Vefþjóðviljinn telur víst að Magnús Þór Hafsteinsson varaformaður flokksins sé sama sinnis.