Þótt þingmenn Samfylkingarinnar vilja banna auglýsingar á sætindum fyrir klukkan níu á kvöldin þá hefur einn þeirra nú lagt fram tillögu til þingsályktunar að leyfa auglýsingar á heilbrigðisþjónustu. Það verður því greinilega áfram þörf fyrir heilbrigðisþjónustu þótt Samfylkingin muni lækna flest mein þjóðfélagsins með alltumlykjandi boðum sínum og bönnum. Annars þyrfti ekki að auglýsa þjónustu lækna og tannlækna.
Í tillögunni sem Ágúst Ólafur Ágústsson er flutningsmaður að segir að Alþingi feli „heilbrigðisráðherra að undirbúa lagabreytingar sem heimila læknum, tannlæknum og öðrum heilbrigðisstarfsmönnum, svo og heilbrigðisstofnunum, að auglýsa þjónustu sína og starfsemi. Við undirbúning slíkrar löggjafar hafi ráðherra samráð við helstu hagsmunaaðila og fagfélög heilbrigðisstétta.“ Ágúst færir ítarleg rök fyrir þessu ágæta máli sínu í greinargerð sem fylgir tillögunni og rekur meðal annars að upphaflegar ástæður fyrir banni við auglýsingum lækna, sem lögfest var árið 1932, voru að halda uppi aga innan fámennrar læknastéttar í landinu. Í greinargerð þingmannsins segir meðal annars:
Núverandi takmarkanir á upplýsingagjöf heilbrigðisstarfsmanna og heilbrigðisstofnana geta verið erfiðar og flóknar í framkvæmd. Mörkin milli upplýsingagjafar t.d. á heimasíðu annars vegar og hefðbundinna auglýsinga hins vegar geta verið óljós. Upp hafa komið álitamál hvort umfjöllun í fjölmiðlum, svo sem í viðtali, teljist auglýsing eða ekki. Eins er það oft á gráu svæði hvort um sé að ræða auglýsingu eða almenna umfjöllun um þjónustu, tækni, getu, tæki eða ákveðna læknisaðferð. Mörk heilsuræktar og forvarna annars vegar og læknisþjónustu hins vegar geta jafnvel í sumum tilfellum skarast. Núgildandi lagaumhverfi er því bæði umdeilt meðal heilbrigðisstétta og jafnframt flókið í framkvæmd. |
Þessi rök eiga flest við um annað sem bannað er að auglýsa. Hvort sem það eru lyf, áfengi eða tóbak. Mörkin milli auglýsinga og annarrar umfjöllunar verða alltaf óljós. Það er því erfitt að fylgja banni við auglýsingum eftir. Þetta eru þó ekki veigamestu rökin gegn banni við auglýsingum heldur þau að slíkt bann skerðir tjáningarfrelsi manna.
Hið kunna fyrirtæki, 666 afþreying ehf., hefur nú ákveðið að opna tvo nýja veitinga- og skemmtistaði í miðborg Reykjavíkur. Hefur annar staðurinn fengið nafnið Gaukurinn og verður hann til húsa við Grófina, gengt veitingastaðnum Gauki á Stöng, sem fáir þekkja. Hinum staðnum hefur ekki endanlega verið valið nafn, en að sögn Marðar Valgarðssonar framkvæmdastjóra stendur valið milli nafnanna Sólon og Sólon Íslandus. Gert er ráð fyrir að staðurinn verði til húsa við Ingólfstræti, ekki langt frá veitingahúsinu Sólon Íslandus í húsi Málarans, sem að sögn Marðar má muna sinn fífil fegri. Í stuttu viðtali við Moggann, nýtt blað í eigu 666 útbreiðslu ehf., sagði Mörður að á nýju stöðunum myndu vinna gamlir og lúnir barþjónar af hinum gömlu. Þeir myndu allir búa á Borginni, nýju hóteli sem 666 gisting ehf. hefði nýlega opnað við Austurvöll, við hliðina á einhverju gistiheimili sem Jóhannes Jósefsson hefði stofnað fyrir löngu en enginn kannaðist við í dag. „Það er ekki nóg að heita Jóhannes“ sagði Mörður að lokum, „þó það hjálpi auðvitað. Það var til dæmis ekki Atli sem komst á samning hjá Celtic, nó sör.“
Ígær var kynnt einhver skýrslan sem einhver nefndin eða starfshópurinn eða eitthvað vann um lýðræðið undir formennsku Kristínar Ástgeirsdóttur fyrrverandi þingmanns. Ef marka má fréttir eru helstu niðurstöður þær að Íslendingar eigi að halda fleiri þjóðaratkvæðagreiðslur vegna þess að Skandínavar haldi oftar slíkar atkvæðagreiðslur en Íslendingar. Hvenær verður haldinn þjóðaratkvæðagreiðsla um að Íslendingar gangi úr Norðurlandaráði, fækki sendiráðum sínum á Norðurlöndum um að minnsta kosti þrjú og opinberar nefndir hætti að nota það sem rök í öllum málum að „við stöndum langt að baki öðrum Norðurlandaþjóðum“?