Það má margt læra af síldarævintýrinu. Siglfirðingar vita betur en flestir hvernig farið getur ef menn umgangast ekki auðlindirnar af varfærni. |
– Sigríður Anna Þórðardóttir nýr umhverfisráðherra í samtali við Vísi 15. september 2004. |
F
Umhverfisráðuneytið í Vonarstræti lætur lítið yfir sér. Rekstur þess kostar þó vonum meira eða 57 þúsund krónur á hverja fjögurra manna fjölskyldu á ári. |
rá því umhverfisráðuneytið var stofnað eru liðin fjórtán ár og fjórum sinnum hefur verið kosið til Alþingis á þessum tíma án þess að stærsti stjórnmálaflokkur landsins hafi stýrt ráðuneytinu. Sjálfstæðisflokkurinn var raunar andvígur stofnun ráðuneytisins á sínum tíma. Stofnun þess var liður í hrossakaupum í síðustu vinstristjórn. Á haustdögum árið 1989 tryggði ríkisstjórn Steingríms Hermannssonar, Ólafs Ragnars Grímssonar og Jóns Baldvins Hannibalssonar sér stuðning þingmanna Borgaraflokksins með því að tveir þeirra urðu ráðherrar, annar í nýju ráðuneyti umhverfismála og hinn í dómsmálaráðuneyti.
Umhverfisráðuneytið hefur vaxið hratt á þessum tíma. Samkvæmt ríkisreikningi fyrir árið 1998 voru útgjöld ráðuneytisins 2.488 milljónir króna. Í fjárlagfrumvarpi fyrir árið 2004 eru ráðuneytinu ætlaðar 4.149 milljónir króna. Útgjöldin hafa því aukist um tæp 67% á sama tíma og almennt verðlag hefur hækkað um 28%.
Þótt ríkisútgjöldin til umhverfismála hafi aukist hratt eru umhverfisverndarsinnar alls ekki ánægðir með stöðu mála. Jafnvel mætti segja að síðustu ár hafi þeir gengið af göflunum og nú segir einn varaþingmaður stjórnarandstöðunnar að „farið hafi fé betra“ að því tilefni að Siv Friðleifsdóttir yfirgefur ráðuneytið. Þó er líklega engin hætta á því að þeir muni draga þann lærdóm af þessu að umhverfismál séu almennt betur komin hjá einstaklingum en ríkinu. Nei, nei, áfram verður jafnvel haldið úti sérstökum stjórnmálaflokki fyrir þá sem eru óánægðir með „fjársveltið í þessum málaflokki“, eins og raunar öllum öðrum.
Nýr umhverfisráðherra hlýtur hins vegar að taka það til skoðunar hvers vegna útgjöld ráðuneytisins hafa aukist svo á síðustu árum og hvort það megi snúa þessari þróun við. Það er jafnvel full ástæða til að skoða hvort Sjálfstæðisflokkurinn hafi ekki haft rétt fyrir sér á sínum tíma um að sérstakt ráðuneyti um þessi mál sé óþarft.
Þau orð hins nýja umhverfisráðherra að menn þurfi að umgangast auðlindir af varfærni og dæmið sem hún nefnir því til staðfestingar vita á gott. Ótakmörkuð sókn í auðlindir leiðir til ofnýtingar eins og svo mörg dæmi eru um. Í meginatriðum eru til tvær leiðir til að takmarka nýtingu auðlinda. Annars vegar með því að gera þær, eða nýtingaréttinn, að einkaeignarréttindum. Hins vegar má takmarka nýtinguna með lögum og reglum. Með einkaeignarrétti er viðhald og skynsamleg nýting auðlindar tengt fjárhagslegum hagsmunum einstaklinga. Það er því líklegt en að sjálfsögðu ekki öruggt að nýtingin verði skynsamleg. Takmörkun á nýtingu með lögum og reglum verður alltaf tilviljanakenndari. Við lagasetningu togast á ýmsir hagsmunir. Þetta sáu menn í sumar þegar æðstu menn þjóðarinnar, stjórnmálaflokkar, stórfyrirtæki, fjölmiðlar og hagsmunasamtök héldu námskeið í því hvernig lög verða til og ekki til. Það er ekki gott að nýting auðlinda sé háð slíkum duttlungum.