Okkur hefur tekist með óyggjandi hætti að sýna fram á að hagfræðilegri greiningu Samkeppnisstofnunar á ávinningi af samráði sé verulega ábótavant og að aðrir þættir en samráð séu rétt eins líklegir til að skýra hækkun einingarframlegðar olíufélaganna. |
– Úr greinargerð hagfræðinganna Jóns Þórs Sturlusonar og Tryggva Þórs Herbertssonar í Morgunblaðinu 5. nóvember 2004 |
Það er sláandi að lesa greinargerð hagfræðinganna Jóns Þórs Sturlusonar og Tryggva Þórs Herbertssonar sem birtist í Morgunblaðinu síðastliðinn föstudag. Svo virðist sem vinnubrögðum Samkeppnisstofnunar, sem lögð eru til grundvallar ákvörðun samkeppnisráðs um sektir olíufélaganna vegna meints samráðs þeirra, sé verulega áfátt.
Hagfræðingarnir tveir unnu skýrslu fyrir olíufélagið Skeljung hf. í vor sem bar heitið Greinargerð um mat Samkeppnisstofnunar á ávinningi olíufélaganna af meintu ólöglegu samráði, tímabilið 1998-2001. Í þessari greinargerð hagfræðinganna, sem dagsett er 26. apríl 2004, eru gerðar athugasemdir við frumathugun Samkeppnisstofnunar á olíufélögunum.
Í samantekt greinargerðarinnar segir:
Í þessari skýrslu eru meðal annars sett fram rök fyrir því að sú aðferð sem Samkeppnisstofnun notar til að meta áætlaðan ávinning af meintu samráði taki ekki tillit til þess að á hverjum tíma eru margir þættir sem hafa áhrif á verð, kostnað og framlegð fyrirtækja – þættir eins og heimsmarkaðsverð, arðsemiskrafa, þróun gengis, almennt efnahagsástand, næmni neytenda fyrir verðbreytingum o.s.frv. Skýrsluhöfundar fá ekki séð, að sú framlegðaraukning sem á að hafa orðið í kjölfar meints samráðs hafi leitt til verðhækkana olíuvara á Íslandi eftir 1997 umfram almennar verðlagshækkanir. Að sjálfsögðu ber þó að skoða nánar hvaða undirliggjandi kostnaðarliðir hafa áhrif á verðlag, auk álagningar fyrirtækjanna, ef ætlunin er að draga ályktanir um áhrif meints samráðs, en það er einmitt efni þessarar skýrslu. Í frumathugun Samkeppnisstofnunar er engin sérstök skýring gefin á því hvers vegna einblínt er á einingarframlegð sem krónutölu en ekki álagningarhlutfall eins og almennt er gert í samkeppnisrannsóknum. Sterk hagfræðileg rök eru fyrir því að miða eigi við álagningarhlutfall ef nota á framlegð sem viðmið yfir höfuð. … Meginniðurstaða þessarar skýrslu er að mat Samkeppnisstofnunar á meintum ávinningi Skeljungs hf. vegna meints samráðs olíufélaganna – 1.821 milljónir króna á verðlagi ársins 2001 – sé algjörlega órökstutt og að líkur séu á að hækkun framlegðar sem lögð er til grundvallar eigi sér aðrar og eðlilegar skýringar eins og rakið er í skýrslunni. |
Samkeppnisráð gaf ekki mikið fyrir þessar athugasemdir hagfræðinganna þegar endanleg ákvörðun þess upp á tæpar eittþúsund blaðsíður var birt fyrir rúmri viku. Vísar samkeppnisráð meðal annars til þess að hagfræðilegar skýrslur af þessu tagi séu ekki heppileg sönnunargögn í slíkum málum og getur samkeppnisráð í því sambandi sjónarmiða George Stiglers Nóbelsverðalaunahafa í hagfræði og fleiri.
Um þetta atriði segja Jón Þór og Tryggvi í greinargerðinni í Morgunblaðinu á föstudaginn:
Við tökum heilshugar undir sjónarmið George Stigler og annarra sem þar er vísað til, um að hagfræðiskýrslur séu oft óheppileg sönnunargögn í samkeppnismálum, til þess eru niðurstöður um of háðar forsendum og óyfirstíganlegri óvissu. Það er einmitt á þeim grunni sem gagnrýni okkar á hagfræðigreiningu Samkeppnisstofnunar hvílir. Okkur hefur tekist með óyggjandi hætti að sýna fram á að hagfræðilegri greiningu Samkeppnisstofnunar á ávinningi af samráði sé verulega ábótavant og að aðrir þættir en samráð séu rétt eins líklegir til að skýra hækkun einingarframlegðar olíufélaganna. Réttmæt ábending samkeppnisráðs á því ekki við um okkar skýrslu þar sem henni er ekki ætlað að færa fram sönnur á að brot hafi ekki verið framið heldur einungis að mat Samkeppnisstofnunar á ábata sé órökstutt og að líklegt sé að hækkun einingarframlegðar megi skýra með öðrum þáttum. Ábending George Stigler beinist á hinn bóginn að hagfræðilegri greiningu Samkeppnisstofnunar sem á grundvelli einfaldra hagfræðirannsókna staðhæfir að olíufélögin hafi hagnast um tæpan sex og hálfan milljarð að lágmarki. |
Samkeppnisráð virðist með öðrum orðum misskilja sjónarmið Stiglers eða ekki hafa kynnt sér þau nægjanlega. Samkeppnisráð telur sig byggja á sjónarmiðum Stiglers þótt augljóst megi virðast að sjónarmið Stiglers ganga þvert á aðferðir ráðsins.
En þótt samkeppnisráð gefi í orði kveðnu ekki mikið fyrir skýrslu hagfræðinganna fara hins vegar ýmsar tölulegar niðurstöður á fleygiferð frá frumathugun Samkeppnisstofnunar til ákvörðunar samkeppnisráðs. Breytingarnar hlaupa á tugum prósenta. Þannig lækkar meintur árlegur ávinningur olíufélaganna af samráðinu úr 1.662 milljónum króna í 927 milljónir króna frá frumathugun Samkeppnisstofnunar til ákvörðunar samkeppnisráðs. Þetta er lækkun um 44%. Þótt ekki væri öðru til að dreifa hljóta menn að sjá hvílíkt fúsk þessi vinnubrögð samkeppnisyfirvalda eru. Hvernig geta niðurstöður útreikninga Samkeppnisstofnunar á meintum ávinningi olíufélaganna tekið svo miklum breytingum?
Um þessa loftfimleika samkeppnisyfirvalda með tölur segja Jón Þór og Tryggvi í Morgunblaðinu:
Einnig er eftirtektarvert að í frumathugun samkeppnisyfirvalda á meintu samráði íslensku olíufélaganna er því haldið fram að olíufélögin íslensku hafi hagnast um allt að 6.650 milljónir króna vegna hækkunar einingarframlegðar í eldsneytissölu á árunum 1998-2001. Í niðurstöðu samkeppnisráðs kemur fram það mat að samanlagður ávinningur olíufélaganna af hækkun einingarframlegðar að raunvirði á árunum 1996-2001, samanborið við viðmiðunarárin 1993-95, hafi numið um 6.487 milljónum króna. Samkeppnisstofnun hefur sem sagt lengt það tímabil sem þeir telja falla undir samráð um tvö ár, um leið og heildarupphæð ávinningsins á ári hefur lækkað umtalsvert, úr að meðaltali 1.662 milljónum að meðaltali á ári í 927 milljónir á ári. |
Skýrt skal tekið fram að við notuðum það tímabil sem miðað var við í frumskýrslu Samkeppnisstofnunar, án þess að hafa undir höndum forsendur þeirrar ákvörðunar. Ekki virðist skýrt út í ákvörðun Samkeppnisráðs af hverju breytt var um viðmiðunartímabil frá því sem gert var í frumathugun Samkeppnisstofnunar. Þá er órökstutt hvernig mæla megi áhrif samráðs á einingarframlegð með því að bera saman tvö tímabil þar sem samráð er talið hafa átt sér stað í báðum tilfellum. Samkeppnisráð telur í ákvörðun sinni að samráð hafi verið viðhaft allt frá því að samkeppni var gefin frjáls, þ.e.a.s. samráð hafi einnig verið viðhaft á viðmiðunartímabilinu. Um þetta atriði höfðum við ekki vitneskju við vinnu okkar skýrslna. Augljóst má þó vera að þessar upplýsingar draga enn frekar úr áreiðanleika mats Samkeppnisstofnunar á áhrifum samráðs. Sama gildir í raun um okkar aðferð, en þó ekki í eins miklum mæli, því að við notum einnig tímabilið eftir desember 2001 til viðmiðunar. |
Meðal annars á þessum ótraustu vinnubrögðum samkeppnisyfirvalda er svo byggð æsileg umræða um „mafíu“, „aðför að samfélaginu“ og „stærsta þjófnað sögunnar“.