F yrrverandi formaður Alþýðubandalagsins og fyrrverandi þingmaður sama flokks, sem fyrir fáeinum árum lét líta út fyrir að afskiptum af stjórnmálum væri lokið og nú væri kominn tími til að gegna ópólitísku sameiningarhlutverki fyrir þjóðina, hefur kosið að snúa sér aftur opinberlega að stjórnmálum. Hann hefur einnig kosið að sinna ekki þeirri skyldu sinni að vera við opinbera athöfn einnar helstu vinaþjóðar Íslands og hann kaus jafnvel að gera það með svo skömmum fyrirvara að tryggt væri að þeir sem buðu honum til sín myndu móðgast. Jafnvel þeir sem hafa álitið embætti forseta Íslands óþarft tildur hljóta að sjá að slík framkoma er óviðunandi. Sá maður sem tekur að sér að gegna embættinu verður að sinna því eins og til er ætlast í stað þess að beina því inn á þær brautir sem enginn maður hefur viljað að það færi. Embætti forseta Íslands er ekki séreign þess sem embættinu gegnir hverju sinni og hann hefur enga heimild til að fara með það eftir eigin geðþótta.
Formaður Blaðamannafélagsins hvetur til þess að stuðningsmenn fjölmiðlafrumvarpsins verði fengnir til að lýsa andstöðu við það sem „persónulegan greiða“. |
Og inn á hvaða brautir skyldi forseti lýðveldisins hafa beint embættinu? Jú, hann hefur ákveðið að gera embættið að pólitískum þátttakanda í deilum um tiltekna lagasetningu þar sem hann kýs að stilla sér upp við hlið stjórnarandstöðunnar eins og við var að búast þegar fyrrverandi formaður Alþýðubandalagsins er annars vegar. Þeir fjölmörgu sem kusu Ólaf Ragnar Grímsson fyrir átta árum í þeirri trú að hann myndi standa við orð sín og fylgja bæði hefðinni og þeim reglum sem um embættið gilda, þeir hafa vafalítið orðið fyrir vonbrigðum í gær þegar hann sinnti ekki embættisskyldu sinni en hóf þess í stað afskipti af störfum Alþingis.
Annar maður sem í gær kaus að fara illa með embætti sitt er Róbert Marshall formaður Blaðamannafélagsins og fyrrum samflokksmaður Ólafs Ragnars úr Alþýðubandalaginu, auk þess að vera fréttamaður á Stöð 2. Róbert skrifaði blaðamönnum dæmalaust bréf með ótrúlegu orðbragði þar sem hann hvatti þá til að „djöflast“ og „[láta] öllum illum látum“ til að safna undirskriftum gegn fjölmiðlafrumvarpi þingmeirihlutans. Ræða yrði við alla, jafnvel „fjarskylda ættingja úti á landi sem þið hafið ekki heyrt í í sjö ár“. Síðan sagði formaður Blaðamannafélagsins:
Sé fólk fylgjandi frumvarpinu, fáið það samt til að skrifa undir sem persónulegan greiða við ykkur. |
Þannig er nú það. Ef fólk er fylgjandi frumvarpinu, látum þá samt líta út fyrir að það sé á móti því, segir formaður Blaðamannafélagsins. Söfnum undirskriftum til að sýna að fólk sé á móti frumvarpinu, en jafnvel þó að það sé ekki á móti frumvarpinu, fáum það þá samt til að skrifa undir. Nú um helgina fara líklega fram býsna mörg afar óvenjuleg samtöl við gamla vini og kunningja, frændur og frænkur. Eitt þeirra gæti til dæmis verið svona:
Fjarskyldur ættingi úti á landi svarar í símann: Já, halló.
RM: Sæl frænka, þetta er Robbi frændi. Fjarskyldur ættingi úti á landi: Robbi hvaða? RM: Nú Róbert Marshall, litla krúttið eins og þú sagðir alltaf, manstu ekki eftir mér? Fjarskyldur ættingi úti á landi: Já, Robbi litli, en hvað er langt síðan ég hef heyrt í þér. Ég held það hafi bara síðast verið í sjötugsafmælinu mínu fyrir sjö árum. Mikið er gaman að þú skyldir hringja, er ekki allt gott að frétta? RM: Ha, jú jú, allt gott. Heyrðu frænka, ég má sko ekki vera að því að ræða málin, en ég þarf að biðja þig um greiða. Fjarskyldur ættingi úti á landi: Jæja Robbi minn, voðalega er annars mikill gassagangur í þér, er eitthvað að. RM: Já, það er verið að setja lög um fjölmiðla og ég ætlaði að biðja þig að skrifa undir mótmæli gegn lögunum. Fjarskyldur ættingi úti á landi: Ha? RM: Já, sko það verður bara að stöðva þetta fantafrumvarp. Fjarskyldur ættingi úti á landi: Fantafrumvarp? RM: Já, ertu ekki til í að skrifa undir og mótmæla því, það er hægt að gera það á Netinu. Fjarskyldur ættingi úti á landi: Ja, ég veit það nú ekki Robbi minn, ég er nú eiginlega fylgjandi lögunum. Mér finnst ægilegt… RM: …það skiptir engu þó þú sért fylgjandi lögunum, ertu ekki samt til í að skrifa undir sem persónulegan greiða fyrir mig, það er nú ekki svo oft sem ég bið þig um greiða. Fjarskyldur ættingi úti á landi: Ja, ég á náttúrlega voðalega erfitt með að neita þér um greiða krúttið mitt, en ég er nú orðin svo gömul að ég kann ekkert á tölvur og Netið og svoleiðis lagað. RM: Það er ekkert mál, við reddum því… |
Undirskriftarlistar hafa almennt litla þýðingu því að auðvelt er að safna undirskriftum nánast fyrir hvaða málstað sem er. Undirskriftarlistar á Netinu hafa enn minni þýðingu þar sem þeir eru ekki einu sinni ritaðir eigin hendi og hver sem er getur skráð hvern sem er. Þegar við bætist að þeir sem að undirskriftasöfnuninni standa telja sjálfsagt að leita eftir undirskrift þeirra sem eru ósammála, og þá sem persónulegan greiða við sig, þá er undirskriftalistinn í besta falli orðinn merkingarlaus. Eðlilegra er þó að líta á hann sem hreina fölsun um vilja eða skoðanir þeirra sem á honum eru.