Föstudagur 6. febrúar 2004

37. tbl. 8. árg.
Við hlökkuðum alltaf til haustsins í Massachusetts því þá gátum við iðkað knattleik á ísi lögðum tjörnum. Nú orðið geta menn talist heppnir ef tjörn leggur í norðurhluta New Hampshire.
 – John Kerry öldungadeildarþingmaður 17. maí 2000.

Þ

First Connecticut vatnið þar sem John Kerry skautaði á yngri árum. Nú leysir ís af vatninu örlitlu síðar á vorin þrátt fyrir „gróðurhúsaáhrifin“.

að urðu nokkur læti í Flórída fyrir rúmum þremur árum þegar George W. Bush stóð uppi sem sigurvegari eftir fyrstu talningu í forsetakosningum. Hann stóð einnig uppi sem sigurvegari eftir fyrstu endurtalningu en áfram var deilt. Þegar demókratar höfðu látið handtelja atkvæði í völdum sýslum stóð Bush enn og aftur uppi sem sigurvegari. Þessi handtalning var stöðvuð í miðjum klíðum af hæstarétti Bandaríkjanna. Réttbær yfirvöld í Flórída úrskurðuðu sigurinn Bush og sú varð einnig niðurstaðan þegar málið hafði farið upp allt dómskerfi landsins. Jafnvel mótframbjóðandi Bush í þessum kosningum, Al Gore, játaði sig sigraðan að lokum. Síðar efndu átta fjölmiðlafyrirtæki til mikillar rannsóknar á málinu sem hún stóð í níu mánuði og kostaði um 1 milljón Bandaríkjadala. Skoðaðir voru 175.010 kjörseðlar frá Flórída sem talningarvélar höfðu hafnað. Í niðurstöðum rannsóknarinnar kemur fram að ef hæstiréttur Bandaríkjanna hefði leyft endurtalningu hefði Bush ekki unnið með 537 atkvæðum heldur 493. Rannsóknin leiðir einnig í ljós að ef handtalning hefði aðeins farið fram í þeim fjórum sýslum sem demókratar óskuðu upphaflega eftir en það voru einmitt þær sýslur þar sem þeir höfðu mikið fylgi hefði Bush engu að síður unnið með 225 atkvæða mun.

Eftir allt þetta var ekki að undra að menn teldu úrslitin í kosningunum hafa ráðist á Flórída. En það kom ekkert sérstaklega á óvart að Bush sigraði í Flórída og fengi 25 kjörmenn ríkisins. Það kom meira á óvart að hann hefði sigur í Vestur-Virgina sem er hefðbundið vígi demókrata. Í einum af pistlum sínum á vef Cato stofnunarinnar í Washington D.C. segir Patrick J. Michaels að afstaða Al Gores til svonefndra gróðurhúsaáhrifa hafi ráðið miklu um hvernig fór í Vestur-Virginia og þar með forsetakosningunum. Í ríkinu er mikill kolaiðnaður en kolabrennsla er ekki vel séð af þeim sem hafa mikla trú á kenningum um að andrúmsloftið muni hitna af völdum athafna mannsins. Al Gore er einn hinna trúuðu. Kolanámumenn sáu því fram á að missa jafnvel vinnuna ef Gore kæmist til valda. Bush sigraði því örugglega í Vestur-Virgina þótt á sama tíma færu frambjóðendur demókrata með sigur af hólmi í ríkisstjórakosningum og kosningum um annað sæti ríkisins í öldungadeildinni. Í tilefni af því að John Kerry hefur tekið forystuna í forvali demókrata fyrir forsetakosningarnar sem fara fram í haust hefur Michaels grafið upp nokkur ummæli Kerrys um gróðurhúsaáhrifin. Niðurstaða hans er að Kerry sé ekki síður trúaður á þessar kenningar en Gore. Það geti reynst honum þungt í skauti í kosningabaráttunni.

Ein ummæli Kerrys sem Michaels hefur tínt til eru birt hér að ofan. Michaels tók sig því til og kannaði hvenær ís leysti (date of ice-out) af vötnum á æskuslóðum Kerrys þegar hann var 7 til 17 ára eða á árunum 1950 til 1959. Niðurstaðan er að meðaltali sú að það gerðist 1. maí á æskuárum frambjóðandans. Á árunum 1991 til 2000 hlánaði að meðaltali 5. maí. Tilfinning manna er ekki alltaf mjög góður mælikvarði á fyrirbæri í náttúrunni.