Mikilvægt er fyrir kjósendur að vita hvar þeir hafa stjórnmálamenn og hver grundvallarviðhorf stjórnmálamanna eru. Það er þó ekki oft sem stjórnmálamenn ræða grundvallarviðhorf sín, miklu oftar fjalla þeir um dægurmál eða jafnvel bara um það hversu áríðandi það sé að ræða málin. Þá verða til orð eins og „umræðustjórnmál“, sem er – ómeðvituð líklega – aðferð stjórnmálamanns til að segja kjósendum að hann hafi enga skoðun á nokkrum hlut, en langi samt til að komast til valda – eða bara til að baða sig í sviðsljósinu. Slíka stjórnmálamenn hafa kjósendur ekkert við að gera.
Á ársfundi Seðlabankans sem haldinn var í gær flutti stjórnmálamaður ræðu þar sem hann lýsti grundvallarsannfæringu sinni gagnvart skattheimtu og gagnlegt er fyrir þá sem ekki voru viðstaddir að lesa það sem hann sagði um það mál:
Hagvöxtur næstu ára mun skila ríkissjóði miklum tekjum. Ég er þeirrar skoðunar að nú sé gott lag til að nýta þann tekjuauka til að lækka enn frekar skatta fólksins í landinu. Ýmsir hafa haldið því fram að nú séu ekki réttu aðstæðurnar til að lækka skatta. Framundan sé slíkur uppgangur að skattalækkun valdi þenslu. Þetta sjónarmið minnir einna helst á formanninn sem stendur í flæðarmálinu á hverjum degi og gáir til veðurs. Og ýmist er byrinn of mikill eða of lítill, kólgubakki hér og rigningarsuddi þar – allt verður honum að ástæðu til að halda ekki til hafs. Og eins er með úrtölumennina, þegar kemur að skattalækkunum þá er uppsveiflan ýmist of mikil og hætta á þenslu eða ríkissjóður illa staddur vegna þess að það er fyrirsjáanleg niðursveifla og horfur á lækkandi tekjum. Ég hef þá pólitískur sannfæringu og lífssýn að fólkið fari ekki ver, heldur betur með sína eigin peninga, heldur en stjórnmálamennirnir í þess umboði. Og ég spyr, hvenær er tími til að lækka skatta ef ekki núna, þegar ríkissjóðurinn er skuldlítill og tekjurnar að aukast? Hagtæknar kunna að finna endalaus rök fyrir því að hinu opinbera sé best treystandi til að stýra hagkerfinu og því sé aldrei lag til að lækka skatta. En hagfræðingar ættu að vita að því meira sem við skiljum eftir hjá fólkinu því blómlegra og betra verður mannlífið. |
Það er óneitanlega ánægjuefni að forsætisráðherra skuli tala með jafn skýrum hætti um slíkt mál. Allt of fáir stjórnmálamenn virðast hafa þá sannfæringu að fé sé betur komið í vösum almennings en ríkisins og allt of oft finna stjórnmálamenn sér tylliástæður til að hafna lækkun skatta.