Laugardagur 10. ágúst 2002

222. tbl. 6. árg.

Atvinnuleysi á evrusvæðinu fer vaxandi og er 8,4% samkvæmt síðustu mælingu. Atvinnuleysi innan Evrópusambandsins í heild, þ.e. bæði meðal þeirra landa sem nota evruna og hinna sem nota eigin myntir, er 7,7% og fer einnig vaxandi. Á evrusvæðinu eru því 11,6 milljónir manna atvinnulausar og innan Evrópusambandsins alls eru 13,6 milljónir manna án atvinnu. Þessar háu tölur eiga sér að stórum hluta þá skýringu að vinnumarkaður landa Evrópusambandsins er ósveigjanlegur auk þess sem margvíslegar íþyngjandi reglur sambandsins hamla atvinnustarfsemi innan þess. Innan Evrópusambandsins er til að mynda erfitt og kostnaðarsamt að segja upp fólki. Þetta þykir sumum mannúðlegt fyrirkomulag og telja jafnvel að það verði til að draga úr atvinnuleysi. Með þessu móti sé hægt að þvinga vinnuveitendur til að segja starfsfólki sínu ekki upp. Í raunveruleikanum hafa afleiðingar slíkra reglna hins vegar verið þær að vinnuveitendur halda að sér höndum við mannaráðningar, því þeir vita að þegar samdráttur verður hjá fyrirtækjum er engin leið að hagræða með því að segja upp fólki og þar með verður fyrirtækið fyrir miklu meira tapi en ella hefði orðið.

Þýskaland er engin undantekning frá þessu og er ástandið þar afar slæmt. Í Þýskalandi er draumaprins íslenskra jafnaðarmanna, Gerhard Schröder, nú við stjórnvölinn, og þar ganga rúmar 4 milljónir manna um atvinnulausar, sem þýðir 9,7% atvinnuleysi. Sósíaldemókratinn Schröder, sem fyrir fjórum árum vann sigur á stjórn kristilegra demókrata, lofaði að atvinnuleysi yrði ekki meira en 3,5 milljónir í lok yfirstandandi kjörtímabils, en kosið verður í Þýskalandi 22 september. Þetta hefur ekki tekist og er nú talað um að kosningarnar verði Waterloo Schröders. Fari svo má reikna með að íslenskir jafnaðarmenn líti á ósigur Schröders sem eigin ósigur, enda hefðu þeir annars ekki talið sigur hans sinn sigur fyrir fjórum árum.