Vefþjóðviljinn 341. tbl. 19. árg.
Fjölmiðlar segja margar fréttir af vandamálum.
Í vikunni var greint frá því að líklega þyrfti að loka fangelsum og fækka föngum, vegna þess hvernig fjárlagafrumvarpið stendur núna. Í breytingatillögum meirihluta fjárlaganefndar fyrir aðra umræðu í þinginu er lagt til að framlag til Fangelsismálastofnunar verði aukið um 45 milljónir króna frá því sem var á þessu ári, en forsvarsmenn stofnunarinnar telja að 80 milljónir þurfi til að halda rekstrinum í réttu horfi.
Menn sem dæmdir eru fyrir fíkniefnabrot taka mikið rými í fangelsum. Með því að draga úr refsingum fyrir sölu og vörslu fíkniefna mætti minnka álagið á fangelsismálayfirvöld.
Á sama tíma var tilkynnt að nú væri einnig gert ráð fyrir 60 milljóna hækkun opinbers fjár í hítina í Efstaleiti 1. Í hítina renna þúsundir milljóna króna á hverju ári en starfsmönnum þar finnst þeir alls ekki fá nærri nóg. Af einhverjum ástæðum vilja einhverjir í stjórnarliðinu gefast upp fyrir öllum kröfum starfsmanna Ríkisútvarpsins, og því fæst aldrei raunverulegur niðurskurður opinberra framlaga í hítina.
Það blasir við, að við þriðju umræðu fjárlaga á að gera þá breytingu að ekki verði gerð sú hækkun sem nú er lögð til í Ríkisútvarpið.
Og svo á að lækka útvarpsgjaldið svo um muni, og það um þessi áramót. Skattgreiðendur greiða miklu meira en nóg í Efstaleitishítina.