Þau voru góðlátleg, brosin sem stjórnendur ríkisrekna þáttarins Kastljóss settu upp á fimmtudaginn var. Þeir höfðu boðið til sín tveimur mönnum sem standa jú í mjög broslegum atvinnurekstri. Þeir reka sjónvarpsstöðvar. Á Íslandi. Slíkt gerir varla nema brjálað fólk. Vita mennirnir ekki að sjálft ríkið rekur sjónvarpsstöð? Að vísu var það óheillaspor stigið fyrir hálfum öðrum áratug að afnema bann við að aðrir mættu standa í þessum rekstri. Sem betur fer voru þau ósköp frekar í orði en á borði. Ríkið sjálft bar gæfu til að setja lög sem tryggðu að þetta blessað frelsi færi nú ekki úr böndunum. Í lögunum var öllum gert að borga ríkinu sérstakan skatt fyrir að mega eiga viðtæki. Það, eitt og sér, hefði átt að tryggja að aðrir leggðu ekki í að storka ríkinu í sjónvarpsrekstri. Til öryggis hélt ríkið samt einnig áfram að sækja stíft á sjónvarpsauglýsingamarkaðinn.
Þrátt fyrir hið augljósa reyndu menn samt að koma á fót frjálsum sjónvarpsstöðvum á Íslandi. Sumar þeirra gáfust sem betur fer upp og ógnuðu því ekki hinum lögbundnu yfirburðum ríkisins. Aðrar stöðvar áttuðu sig á því að eina leiðin til að niðurgreitt ríkisjónvarpið setti þær ekki á hausinn var að læsa dagskránni og færa reksturinn í form áskriftarsjónvarps. Ein sjónvarpstöð hefur þó þrjóskast við í tvö ár og haldið úti opinni dagskrá. Þessi broslega fáviska og skilningsleysi á því hvernig hlutirnir eiga að vera hefur vitanlega vakið mikla kátínu hjá opinberum starfsmönnum ríkisjónvarpsins. Þar á bær hefur verið keppst við að benda á að þetta hljóti að þýða að þessi glórulausa sjónvarpsstöð ætli að velta fyrrnefndri áskriftarstöð úr sessi enda geti mennirnir ekki verið svo frávita að ætla í „samkeppni“ við sjálft ríkisjónvarpið. Hver veit nema þessar „lágkúrulegu“ einkastöðvar slátri bara hver annarri. Það væri nú tilefni til að brosa allan hringinn.
Því var ekki nema von að Kastljóss-menn glottu út í annað þegar fyrirsvarsmenn hinnar ríkislausu sjónvarpsstöðva voru teknir á beinið á fimmtudagskvöldið. Hinir opinberu starfsmenn gátu enda ekki stillt sig um að spyrja hvort það væri ekki augljóst að ekki væri pláss fyrir báðar þessar frjálsu sjónvarpsstöðvar á markaðnum. Það er von að spurt sé.