Það verður fylgst vel með þingmönnum næstu dagana og vikurnar. Ein mikilvægasta forsenda þess að verðbólga lækki er að komið verði böndum á fjármál ríkis og sveitarfélaga. Þingmenn í fjárlaganefnd, eða a.m.k. meirihluti þeirra, hefur hins vegar lagt til aukin útgjöld frá því sem gert var ráð fyrir í fjárlagafrumvarpinu. Nefndinni tókst á milli fyrstu og annarrar umræðu um fjárlögin að gera tillögu um aukin útgjöld upp á 2.300 milljónir króna þegar þörf var á nokkur þúsund milljóna króna sparnaði. Í meiri hluta nefndarinnar sitja Ólafur Örn Haraldsson, formaður, Einar Oddur Kristjánsson, Kristján Pálsson., Ísólfur Gylfi Pálmason, Arnbjörg Sveinsdóttir, Tómas Ingi Olrich. Vafalaust má gera ráð fyrir að minni hluti nefndarinnar hefði fundið enn fleiri eyðslumál ef hann hefði fengið að ráða. Það fríar ekki þingmenn í meiri hlutanum ábyrgð. Þeir brugðust að þessu sinni.
Í fréttum hefur nú verið sagt frá því að hugsanlega verði gildistöku ákvæða í nýjum lögum um fæðingarorlof frestað til að draga úr útgjaldaaukningu ríkisins. Eins og komið hefur fram eru lögin ein mesta varanlega aukning ríkisútgjalda fyrr og síðar. Þótt menn greini á um efnisatriði laganna hljóta flestir að geta sammælst um að samþykkt laganna var afar óheppileg á sama tíma ríkissjóður var að þenjast út og mikil eftirspurn var eftir mönnum til vinnu. Á þenslutíma voru þessi lög eins og olía á eldinn.
En það dugar ekki eitt og sér að fresta því að veita fólki með 1 milljón króna á mánuði 800 þúsund króna styrk úr velferðarkerfinu eins og fæðingarorlofslögin gera ráð fyrir. Þótt það muni verulega um eyðsluæði fæðingarorlofsins er nauðsynlegt að spara víðar. Þingmenn stjórnarmeirihlutans á Alþingi verða að sjá eigin ávinning í því að spara nú fyrir almenning í stað þess að eyða í sérhagsmunahópana sem herja á þá um aukin fjárframlög. Aðhald og sparnaður nú mun skila sér í lægri verðbólgu á næsta ári og þar með betra efnahagsástandi fyrir næstu þingkosningar. Ef til vill munu einhverjir sérhagsmunahópar hafa hátt þegar skrúfað verður fyrir ókeypis áskrift þeirra að skattfé almennings en hvaða máli skiptir það ef í staðinn tekst á skömmum tíma að lækka verðbólgu og vexti í kjölfarið?