George W. Bush Bandaríkjaforseti kom fyrir nokkrum dögum til baka úr sumarleyfi sínu og þótti sumum kominn tími til. Raddir höfðu nefnilega heyrst um að engin leið væri fyrir Bandaríkjaforseta að fara frá Washington í sumarleyfi í fjórar vikur. Bush svaraði því til að mikilvægt væri að sjá hluti í réttu samhengi og gott væri að komast í sveitina og sjá starfið í Washington í hæfilegri fjarlægð. Vafalaust er það rétt hjá Bush að lyfti menn aldrei höfði upp úr hinum daglega pappírsbunka þá er hætt við að samhengið verði óskýrt og menn sjái ekki skóginn fyrir trjánum. En auðvitað er það líka svo að sumarleyfi Bandaríkjaforseta er ekki eins og sumarleyfi flestra annarra. Hann tekur vinnuna að verulegu leyti með sér í leyfið, hjá því verður ekki komist. Þetta á reyndar við um ýmsa aðra sem gegna sambærilegum störfum, bæði í einkageiranum og hjá hinu opinbera. Má þar nefna yfirmenn í fyrirtækjum og ráðherra í ríkisstjórnum, þó núverandi sjávarútvegsráðherra Íslendinga hafi ekki fullan skilning á hlutverki sínu, eins og um hefur verið fjallað.
En það er önnur og athyglisverðari hlið á þessu vonandi ágæta fríi Bandaríkjaforseta, og það er að stjórnmálamenn þurfa ekki að vinna baki brotnu allan sólarhringinn allt árið um kring til að þjóðfélagið gangi upp. Og raunar er það svo að yfirleitt færi betur á að stjórnmálamenn tækju sér lengri frí og væru síður iðnir. Sem dæmi má nefna að hér í eina tíð hittist Alþingi aðeins í tvo mánuði annað hvert ár og langt framan af síðustu öld voru ráðherrar teljandi á fingrum annarrar handar. Nú er svo komið að menn þurfa að telja bæði á tám og fingrum til að ná saman ráðherrum lýðveldisins, en þó verður ekki séð að betur gangi sem þeir eru fleiri. Og ekki verður heldur séð að fjölgun þingmanna og lenging þingstarfa hafi skilað sér í bættri löggjöf. Löggjöfin hefur að vísu aukist, en magn jafngildir ekki gæðum og flestir þeir lagabálkar sem renna í gegnum Alþingi á hverju ári eru í besta falli óþarfir. Býsna oft eru þeir helst til þess fallnir að sauma að landsmönnum með fyrirmælum eða bönnum.
Gott væri ef íslenskir ráðamenn, bæði ráðherrar og þingmenn, tækju sér George W. Bush til fyrirmyndar varðandi sumarleyfi – og sumt annað ef því er að skipta. Og þingmenn mættu nota sumarleyfið til að blaða í lagasafninu – sem sífellt er verið að endurprenta vegna lagasetningaráráttunnar – og finna lög sem landsmenn geta komist af án.
Talandi um frítíma þingmanna og ráðherra er ekki annað við hæfi en láta þess getið að vitaskuld færi afar vel á því að núverandi forseti tæki sér langt leyfi frá störfum. Á þeim bænum væri viðvarandi sumarleyfi talsverð bót frá því sem nú er.