Laugardagur 2. október 1999

275. tbl. 3. árg.

Í kaflanum um rætur þjóðernissósíalisma í bók sinni Leiðinni til ánauðar veltir Hayek því fyrir sér hvernig þjóðernissósíalistum tókst að afla fylgis meðal mikils meiri hluta Þjóðverja. Þar lýsir hann því hvernig sósíalistar og þjóðernissinnar runnu saman í eitt í sameiginlegri andúð sinni á frjálshyggju og markaðsbúskap. Sósíalistar hafi lagt grunninn að veldi Hitlers með því að ala á tortryggni gagnvart gróðabralli kaupsýslumanna. „Samfylking markaðshatara til hægri og vinstri, róttækra og íhaldssamra samhyggjumanna, hrakti frjálshyggju út úr Þýskalandi“, segir Hayek.

Adolf Hitler
Adolf Hitler

Nýlega kom út bókin Hitler, 1889-1936: Hubris eftir Ian Kershaw þar sem ráðist er til atlögu við þá goðsögn að stjórn Hitlers hafi komið efnahag Þýskalands á réttan kjöl á árunum 1933 – 1936. Um bókina er ritað í nýjasta hefti tímaritsins Reason. Til marks um „efnahagsundur“ nasista er gjarna nefnt að við valdatöku Hitlers árið 1933 hafi sex milljónir manna verið atvinnulausar en þremur árum síðar hafi allir haft vinnu. Kershaw dregur fram gögn sem sýna að líklega hafi 2,5 milljónir manna enn verið atvinnulausar árið 1936. Þá eigi eftir að taka tillit til þess að nær ein milljón hafi verið kölluð í herinn, vinnubúðir eða komið fyrir í stofnunum Þjóðernissósíalistaflokksins og hálf milljón kvenna hafi verið lokkuð af vinnumarkaði með ríflegum ríkisstyrkjum til heimavinnandi húsmæðra. Þetta var allt fjármagnað með því að ganga á gullforða ríkisins og aðra sjóði auk mikillar lántöku. Árið 1935 mátti ekki miklum muna að alvarlegur matarskortur yrði vegna landbúnaðarstefnu Hitlers en hann hafði lokað fyrir allan innflutning á matvælum og eytt miklu fé í innflutning á hráefnum til hergagnaframleiðslu. Í minnismiða til Görings vegna efnahagmálanna skrifaði Hitler: „Við erum of mörg og auðlindir okkar duga ekki tl að fæða okkur og klæða. Við verðum því að auka svigrúm þjóðarinnar þ.e. leggja undir okkur nýjar auðlindir sem tryggja okkur hráefni og fæðu.“ Hitler stóð því frammi fyrir tveimur kostum : Annars vegar að losa um tökin innanlands, hægja á hernaðarbröltinu og opna hagkerfið en eiga um leið á hættu að missa völdin. Hins vegar gat hann att þjóðinni út í stríð. Það þekkja allir hvaða leið hann kaus.