Stefán Jón Hafstein fjallaði um fjármál framboða og stjórnmálaflokka í leiðara Dags síðastliðinn fimmtudag. Þar talar hann einu sinni sem oftar fullur vandlætingar um þetta efni, segir fjármál flokkanna hluta neðanjarðarhagkerfisins og krefst þess að þau verði opinber. Þá má jafnframt lesa út úr leiðaranum að hann vilji auka fjárframlög ríkisins til flokka og framboða.
Ýmislegt er við þennan málflutning ritstjórans að athuga. Í fyrsta lagi má spyrja, hvers vegna fjármál flokka og framboða eigi að vera opinber. Skattyfirvöld hafa heimildir til að kanna þá þætti fjármálanna sem að þeim snúa og hver flokkur eða samtök hefur sínar eigin aðferðir við að fara yfir reikninga, endurskoða og staðfesta. Gildir þar það sama um flokka og önnur almenn félög, sjálfseignarstofnanir og slíka aðila. Fólkið, sem á aðild að flokkunum, getur haft áhrif á þessar aðferðir og yfirgefið flokkana ef því líkar ekki hvernig er að málum staðið. Ef flokkur vill gera fjármál sín opinber er ekkert við það að athuga og ef flokkur vill ekki gera það er ekki heldur ástæða til að grípa til neinna aðgerða. Flokkur, sem ekki gerir reikninga sína opinbera, á að vísu á hættu að lýðskrumarar í hópi pólitískra andstæðinga og fjölmiðlamanna reyni að gera hann tortryggilegan vegna leyndarinnar með þeim afleiðingum að kjósendur verði honum fráhverfir. Það er hins vegar ákvörðun flokksins sjálfs hvort hann tekur slíka áhættu eða ekki.
Um auknar fjárveitingar úr ríkissjóði til stjórnmálaflokka er það að segja, að ríkið hefur ýmsum brýnni verkefnum að sinna en að auka styrki til flokka, svo þeir geti auglýst meira í fjölmiðlum dagana fyrir kosningar. Það má nefnilega telja fullvíst að aukið auglýsingamagn yrði eina áþreifanlega afleiðingin af auknum ríkisstyrkjum. Sá þáttur er trúlega eini þátturinn í starfi flokkanna sem hefur sérstaklega valdið auknum útgjöldum á undanförnum árum og má deila um það hvort sú þróun hefur orðið til þess að lyfta stjórnmálaumræðum hér á landi á hærra plan.
Í leiðaranum á fimmtudag kvartar Stefán Jón Hafstein að lokum yfir skorti á vandaðri fjölmiðlaumfjöllun um fjármál stjórnmálaflokka. Það hefur hann gert áður. Ekki er því úr vegi að minna Stefán Jón á, að ef hann vill byrja vandaða umfjöllun um fjármál stjórnmálaflokka gæti hann látið blaðamenn sína kanna, hvað hæft er í ásökunum, sem ítrekað hafa komið fram á síðum blaðs hans og Morgunblaðsins, um margháttaða fjármálaóreiðu og hugsanlega spillingu í fjármálum Alþýðubandalagsins.
Úlfar Þormóðsson hefur varpað fram nokkrum mikilvægum spurningum í þessu sambandi, sem forystumenn Alþýðubandalagsins hafa ekki hirt um að svara. Kannski myndu þeir svara blaðamönnum Dags, t.d. rannsóknarblaðamanninum Friðriki Þór Guðmundssyni, ef Stefán Jón teldi ástæðu til að fara af alvöru ofan í þetta mál.
Laugardagur 3. október 1998
276. tbl. 2. árg.