Vefþjóðviljinn hefur stundum vakið athygli á því, að sjálfsálit og þótti núverandi forystumanna Stúdentaráðs Háskóla Íslands virðast vera með hreinum ólíkindum. Fyrir nokkru benti Vefþjóðviljinn á viðtal við formann Stúdentaráðs, Ásdísi Magnúsdóttur að nafni, þar sem hún afgreiddi stefnuna í menntamálum með þessum hógværa hætti: Það sem mér er efst í huga er að Björn Bjarnason heldur því á lofti að vert sé að ræða hvort taka beri upp skólagjöld við Háskóla Íslands. Þarna greinir okkur á í grundvallaratriðum og skólagjöld munum við aldrei samþykkja og því þarflaust að ræða um þau.
Í dag stendur Ásdís svo í stórræðum. Henni þykir ekki nóg gert fyrir háskólastúdenta og meðal þess sem hún er reið yfir, er að Landsbókasafnið stendur ekki opið fram á nótt. Hefur hún ákveðið að stúdentar grípi því til harðra aðgerða til að heimta rétt sinn. Ásdís Magnúsdóttir hefur tilkynnt þá ákvörðun sína að stúdentar skuli fjölmenna á Landsbókasafnið í dag, láta afgreiðslutíma safnsins sig engu varða en sitja þar svo lengi sem þeir þurfa.
Kannski eru til aðrir menn en hún sem þykir þetta mikill töffaraskapur. En þá þekkir Vefþjóðviljinn háskólastúdenta illa ef margir þeirra vilja gera sig að fífli með Ásdísi. Því hvað er ekki réttlætanlegt ef þetta er það? Hvað kemur næst hjá
þessum formanni Stúdentaráðs? Er ekki allt of dýrt fyrir stúdenta í strætó? Eiga þeir ekki líka að fylla strætisvagnana og borga bara það sem þeim sjálfum finnst sanngjarnt? Og námsbækurnar, ekki má nú gleyma þeim. Mega stúdentar ekki fara í bókabúðir á þeim tíma sólarhrings sem þeim hentar, taka þær bækur sem þeir þurfa og borga fyrir það sem þeim finnst sanngjarnt? Svona til að auka skilning manna á því að nám er sko vinna.
En nú vill svo til að umrædd Ásdís Magnúsdóttir er ekki bara formaður Stúdentaráðs. Hún er líka laganemi. Ekki veit Vefþjóðviljinn hvaða grein lögfræðinnar hún hyggst stunda á safninu í kvöld en þar eru ýmsir möguleikar. Vefþjóðviljinn vill ekki að henni leiðist og stingur því upp á að hún finni sér eitthvað krassandi að lesa, svo sem almenn hegningarlög en þar eru margar fróðlegar greinar, til dæmis 231. og 121. gr.