Þeir sem héldu að ekki væri hægt að skera (meira) niður hjá hinu opinbera ættu að skoða styrktarlínurnar í 1. tbl. Röskvublaðsins fyrir kosningarnar í Háskóla Íslands í ár. Þar gátu m.a. eftirfarandi opinberir aðilar séð af fjármunum til baráttunnar í Háskólanum: Heilbrigðiseftirlit Eyjafjarðar, Menntaskólinn á Akureyri, Oddeyrarskóli, Akureyrarbær, Dalvíkurbær, Heilsugæslustöð Hornbrekku (við Ólafsfjarðarveg), Heilbrigðiseftirlit Norðurlands, Framhaldsskólinn á Húsavík, Þórshafnarhreppur, Bókasafn Héraðsbúa, Heilsugæslustöðin Laufskógum 1, Neskaupsstaður, Framhaldsskólinn í Austur-Skaftafellssýslu, Framhaldsskólinn í Vestmannaeyjum, Skólaskrifstofa Vestmannaeyjabæjar, Rannsóknasetur Háskóla Íslands, Slökkvilið Reykjavíkur, Norræna húsið, Námsflokkar Reykjavíkur, Vesturhlíðarskóli, Strætisvagnar Reykjavíkur, Rannsóknaþjónusta Háskólans, Hitaveita Reykjavíkur, Námsflokkar Hafnarfjarðar, Bókasafn Grindavíkur, Sandgerðisbær, Varmárskóli, Álftaneshreppur, Varmalandsskóli, Bændaskólinn, Hólmavíkurhreppur, Iðnþróunarfélag Norðurlands-Vestra, Blönduósbær, Rafmagnsveitur ríkisins, Fjölbrautarskóli Norðurlands-Vestra.
Svo eru menn hissa á því að vinstri menn vilji ekki einkavæða fyrirtæki!
Það hefur alltaf þótt gott að skulda hér á landi. Á verðbólgutímanum var lánsfé eðlilega eftirsótt þar sem skuldirnar hurfu í verðbólgubálið og menn þurftu helst að þekkja mann eða að minnsta kosti mann sem þekkti mann til að fá lán. Eftir sátu sparifjáreigendur með sárt ennið. En er þessi tími að baki þar sem sparsömu fólki er refsað og skuldaliðið verðlaunað? Því fer fjarri. Með vaxtabótakerfinu er fólk hvatt til þess að skulda sem mest því þannig getur það hækkað vaxtabæturnar. Því hærri skuldir þeim mun hærri vaxtabætur. Og ekki nóg með að fólki sé refsað fyrir ráðdeildarsemi. Fólki er einnig refsað fyrir að vinna því vaxtabæturnar skerðast um 6 krónur fyrir hverjar 100 krónur sem menn vinna sér inn.
Vaxtabótakerfið hvetur raunar einnig til skilnaðar hjóna og sambýlisfólks þar sem einstætt foreldri og einstaklingur geta samtals fengið 322 þúsund krónur í vaxtabætur en hjón og sambýlisfólk „aðeins“ 233 þúsund krónur.
Það margborgar sig því að skulda sem mest, vinna sem minnst og nota tímann frekar til að heimsækja „fyrrverandi“ eiginkonu og börn. Þá fást líka hærri barnabætur og lægri leikskólagjöld.