Fimmtudagur 6. febrúar 1997

37. tbl. 1. árg.

6. febrúar 1997: Ungi ,,frjálslyndi“ þingmaður Framsóknarflokksins…
Siv Friðleifsdóttir, sem sumir héldu fyrir síðustu kosningar að boðaði breytta tíma í þeim afturhaldssama flokki, stendur þessa dagana dyggan vörð um fortíðina. Hún gagnrýnir hófsamar breytingatillögur stjórnar ÁTVR um að leyft verði að selja létta áfenga drykki í venjulegum verslunum og að ÁTVR hætti að dreifa tóbaki. Það er með miklum ólíkindum hvað sumir þingmenn hafa litla trú á því að almenningur í landinu geti hagað sér skynsamlega. Það er bara óskandi að það tengist ekki þeirri staðreynd að þessi almenningur kaus þá á þing.

6. febrúar 1997: Heilbrigðisráðherra hefur fellt niður…
afslátt sem ellilífeyrisþegar höfðu á afnotagjöldum Ríkisútvarps. Þetta leiðir hugann að því að starfsmenn Ríkisútvarpsins hafa ekki þurft að greiða þessi fráleitu en lögboðnu gjöld þrátt fyrir að lög mæli skýrt fyrir um það. Þeir hafa heldur ekki greitt skatt af þessum 25. þúsund króna hlunnindum. Ögmundur Jónasson, þingmaðurinn síkáti, er formaður BSRB og þar með stéttarfélags starfsmanna Ríkisútvarpsins. Hann hefur oft lýst þeirri skoðun sinni að allir eigi að greiða afnotagjöldin (þótt hann hafi ekki gert það sjálfur þegar hann var fréttamaður á RÚV). Hann hefur líka fárast yfir undandrætti frá skatti. Hér er því baráttumál sem hann ætti að taka upp á arma sína og slá þar með tvær flugur í einu höggi: Láta starfsmenn RÚV greiða afnotagjöldin og fækka undanskotum frá skatti. Áfram Ögmundur!