Laugardagur 14. mars 1998

73. tbl. 2. árg.

Áður hefur verið á það bent hér að ef til vill sé ekki mikil ástæða til að taka baráttu Jóhönnu Sigurðardóttur gegn laxveiðiferðum bankastjóra hátíðlega. Ástæðan er sú að hún hefur beitt sér gegn því eina sem raunverulega getur tekið slíkt út af dagskrá stjórnmálanna, þ.e. einkavæðingu bankanna.

Annað sem dregur úr trúverðugleika Jóhönnu þegar kemur að umræðum um meðferð opinbers fjár er Þjóðvakablaðið sem kom út um allnokkra hríð fyrir og eftir síðustu þingkosningar. Í fjórum fyrstu tölublöðum Þjóðvakablaðsins voru 43 „auglýsingar“ frá hinu opinbera, t.d. um útboð og lausar stöður, en ljóst er að slíkar birtingar eru bara styrkir en hafa ekkert gildi fyrir auglýsandann í Þjóðvakablaðinu. Hvers vegna „heilög“ Jóhanna telur skárra að hafa fé af hinu opinbera með sölu gerviauglýsinga en með sölu laxveiðileyfa er ekki gott að segja. Hún  hefur þó rétt fyrir sér um það að víða er pottur brotinn.

VÞ hefur af og til minnt á sumarnámskeið IHS. The Foundation for Economic Education (FEE) í New York býður upp á  svipuð námskeið á sumrin. FEE var stofnað árið 1946 og hefur alla tíð helgað sig starfi í þágu einstaklingsfrelsis. FEE  gefur einnig út tímaritið The Freeman sem er afar læsilegt mánaðarrit sem höfðar sennilega frekar til lesenda utan Bandaríkjanna en t.d tímaritið Reason. VÞ hvetur lesendur sína til að nýta sér tilboð FEE um kynningareintak af The Freeman. Ársáskrift (12 blöð) kostar svo um 3.350 krónur.