Laugardagur 2. nóvember 2013

Vefþjóðviljinn 306. tbl. 17. árg.

Hvað er svo lofsvert við að skilja við borgarsjóð í skuldafeni, alla skatta í hámarki og stjórnina í höndum embættismanna?
Hvað er svo lofsvert við að skilja við borgarsjóð í skuldafeni, alla skatta í hámarki og stjórnina í höndum embættismanna?

Menn keppast við að hlaða Jón Gnarr lofi fyrir að leita ekki endurkjörs sem borgarstjóri. Flott hjá honum, segja menn. Það er nú það. Embættismannakerfið fékk að leika lausum hala undanfarin fjögur ár. Líklega hefur engin borgarstjórnarmeirihluti í sögunni verið svo kerfislægur. En það tóku fáir eftir því á meðan borgarstjórinn var í búningi. 

Eins og Kjartan Magnússon vakti athygli á í vikunni í Morgunblaðinu eru undanfarin ár í borginni fyrst og síðast ár kerfisins. Því fylgja hærri skattar og skuldir.

Frá því meirihluti Besta flokksins og Samfylkingar tók við árið 2010 hafa skatttekjur hækkað verulega eða um 26%. Þær voru tæpir 50 milljarðar árið 2010 en eru áætlaðar 63 milljarðar á næsta ári samkvæmt áætluninni.

Útþensla kerfisins á kostnað borgarbúa er það sem stendur upp úr þegar litið er yfir verk meirihluta Besta flokksins og Samfylkingarinnar. Meirihlutinn hefur fundið upp á mörgum nýjum verkefnum og hlaðið utan á kerfið þannig að það vex ár frá ári og kostnaður eykst. Áætlað er að rekstur málaflokka borgarinnar muni nema um 80 milljörðum króna á næsta ári en skatttekjur skili um 69 milljörðum.

Og þá að skuldunum:

Aukningin nemur 26 milljörðum króna á tímabilinu eða 6,5 milljörðum króna á ári frá árinu 2010, sem jafngildir því að allt kjörtímabilið hafi skuldir aukist um 750 þúsund kr. á klukkustund. Niðurstaðan er áfellisdómur yfir fjármálastjórn meirihlutans í borgarstjórn.