Í raun eru Sameinuðu þjóðirnar hraksmánarleg stofnun. Spillingin er ólýsanleg. Ef menn halda – eins og fjölmiðlar og vinstrimenn í þessu landi virðast halda – að ástandið í Írak sé slæmt (sem það er ekki) þá ættu menn bera það saman við Balkanskaga, Súdan eða jafnvel Kýpur. Það er sama hvert er litið er þar sem Sameinuðu þjóðunum hefur verið falið að leysa vandann. |
-Mark Steyn, pistlahöfundur í The Daily Telegraph, Spectator og víðar í ræðu í Washington D.C. |
B laðamaðurinn Mark Steyn reynir yfirleitt að koma skoðun sinni til skýrt skila þegar hann kveður sér hljóðs. Í erindi sem hann flutti í Bandaríkjunum í desember vék hann nokkrum orðum að Sameinuðu þjóðunum og þeirri skoðun margra mætra manna að Sameinuðu þjóðirnar þurfi að koma að sem flestum málum, jafnvel þótt ekki sé með öðrum hætti en að fyrir liggi samþykki þeirra fyrir um snúa sér undan á meðan málið er afgreitt.
Erindi Steyns er raunar ein allsherjar skammarþula um SÞ og furðulegt hve fátt af því sem hann tínir til hefur hlotið umfjöllun að ráði í vestrænum fjölmiðlum. Hér er aðeins drepið á nokkrum þeim atriðum sem Steyn nefnir.
Steyn rifjar það upp að skömmu fyrir innrásin í Írak árið 2003 hafi tvennt borið til tíðinda innan Sameinuðu þjóðanna. Annars vegar hafi Lýbía Gaddafís hershöfðingja tekið við forsæti í mannréttindanefnd SÞ og hins vegar hafi það verið tilkynnt að Írak Saddams Husseins tæki við forsæti á afvopnunarráðstefnu SÞ. En síðan víkur hann að því hve litlar kröfur menn gera til Sameinuðu þjóðanna í samanburði við einstakar ríkisstjórnir.
Didier Bourguet, starfsmaður SÞ í Kongó og Mið-Afríkulýðveldinu, gerði sér gott af 12 ára gömlum stúlkum og er nú fyrir rétti í Frakklandi fyrir þær sakir. Lögfræðingur hans hefur sagt að hann hafi verið þátttakandi í skipulögðu kynferðislegu ofbeldi starfsmanna SÞ gegn börnum, allt frá Afríku til Suðaustur Asíu. Hafa nokkrar fréttir borist af þessu? Þegar spurðist til konu í bandaríska hernum sem leitt hafði fanga í Abu Ghraib með kvennærbrók á hausnum var umyrðalaust krafist afsagnar Donalds Rumsfelds og Ted Kennedy lýsti því yfir að að pyndingarklefar Saddams væru komnir í notkun á ný „undir nýrri stjórn“. En hvað um skipulagt kynferðislegt ofbeldi í að minnsta kosti helmingi aðgerða á vegum SÞ? Hinir yfirþjóðlegu siðapostular geta vart varist því að geispa yfir slíkum tíðindum. Ef menn ætla að níðast á stúlkubörnum er best að setja bláa hjálminn á hausinn. |
Steyn segir að ofbeldi starfsmanna SÞ gegn börnum sé versta dæmið um afleiðingar afskiptasemi SÞ af heiminum. Það hlýtur að vera umhugsunarefni þeim sem gefa barnahjálp SÞ fé hvernig starfsmenn stofnunarinnar hafa hagað sér gagnvart börnum. Hann bendir á að þeir sem lengst og mest hafi treyst á SÞ séu verst staddir allra, eins og Palestínumenn. Steyn víkur svo sögunni að spillingunni sem þreifst í skiptum stofnunarinnar á mat fyrir olíu í Írak. Meðal þeirra sem sætt hafa rannsókn vegna þess eru Kojo Annan, sonur Kofis aðalritara. Kojo hafði 30 þúsund dali í árslaun en tókst engu að síður að öngla saman 250 þúsund dölum til að fjárfesta í svissnesku knattspyrnuliði. Kobina Annan, bróðir aðalritarans og háttvirtur sendiherra Ghana í Marokkó kemur einnig við sögu ásamt fleiri góðkunningjum fjölskyldunnar.
Benon Sevan yfirmaður matar-fyrir-olíu og félagi Kofis Annans hefur því miður neyðst til að segja af sér út af þessum ávirðingum. En það kemur þó ekki að sök því öldruð frænka hans sem bjó í látlausri tveggja herbergja íbúð á Kýpur færði honum sex talna fjárhæð að gjöf sem skýrir að hans sögn hve sjóðir hans í bönkum eru drjúgir. Áður en náðist að yfirheyra frænkuna á Kýpur féll hún hins vegar niður um lyftuop og er ekki til frekari frásagnar. Steyn segir að þrátt fyrir meinta gjafmildi frænkunnar heitinnar á Kýpur kunni skýringin á góðum efnum Benons Sevans ekki síður að skýrast af viðvikum hans fyrir fyrirtæki sem frændi forvera Kofis Annans, Boutros Boutros-Gali, rak.
Maður mætti ætla að virðing manna fyrir Sameinuðu þjóðunum mundi hrapa hraðar en frænka Benons Savans niður lyftuopið. Þetta eru engin peð sem í hlut eiga. Þræðirnir liggja allir að æðstu stjórn stofnunarinnar og varða tvö mikilvægustu málin sem hún fjallar um; Írak og Norður-Kóreu. Flestir diplómatarnir frá Ghana og skjólstæðingar þeirra virðast jafnframt vera í stjórnunarstöðum fyrirtækja sem hafa átt í viðskiptum við SÞ og/eða hlut í olíu Saddams.
Það er hins vegar mikilvægt að átta sig á því að Sameinuðu þjóðir Annans, sem markaðar eru af peningaþvætti í nafni mannúðar og nauðgunum í nafni friðargæslu og bjóða upp á Mannréttindanefnd sem lítur út eins og verðlaunahátíð fyrir heimsins verstu kvalara, eru ekki undantekningin sem sannar regluna. Ástandið verður ekki lagað með umbótum í skrifræðinu sem tryggja það eitt að vanhæf eftirlitsnefnd um fjármál stofnunarinnar verði framvegis sett undir eftirlitsnefnd með eftirlitsnefnd um fjármál. |
Steyn segir að þeir Vesturlandabúar sem seilist til áhrifa hjá SÞ eigi það oft sammerkt með einræðisherrum þriðja heimsins að þeir eigi erfitt með að vinna kosningar heima fyrir. Það megi bæta sér upp með því að beita SÞ. Bandaríkin eigi því að stefna að úrsögn úr samtökunum þótt það sé ef til vill ekki raunsætt markmið nú um stundir.
Að Kofi Annan & Co. frátöldum er heimurinn að mestu leyti á réttri leið. Mörg lönd sem áður voru einræðisríki eru nú ófullkomin en engu að síður nokkuð ásættanleg lýðræðisríki. Má þar nefna Mið- og Austur-Evrópu og Suður-Ameríku. Sameinuðu þjóðirnar hafa lítið komið við sögu hvað þetta varðar. |