Hjálparsamtökin Oxfam gefa á hverju ári út skýrslu um misskiptingu auðs í veröldinni. Að þessu sinni dregur skýrslan upp þá mynd að 8 ríkustu menn heims eigi jafn miklar eignir og fátækari helmingur mannkyns.
Erlendur Magnússon sem oft leggur gott til þjóðmálaumræðunnar skrifar að þessu tilefni á Facebook-síðu sína:
Rökvillan er að horft er á nettó eignir í stað lífsgæða eða tekna. Þannig teljast til fátækari helmingsins svo til allir hvítvoðungar heimsins (eignalausir og skuldlausir) svo og fólk nýútskrifað úr bestu háskólum heims á síðustu árum, því það er algengara en ekki að á þeim tíma í lífinu skuldi menn meira en þeir eiga (það á janvel við hátekjufólk í þeim hópi) – þessir háskólaborgarar eru því skv. skilgreiningu Oxfam fátækari en sjálfsþurftarbændur í Afríku, sem eiga lítið en skulda ekkert.
Þegar þessir 8 ríkustu menn heims eru skoðaðir, má sjá að þeir hafa ekki orðið ríkir af ofurlaunum, heldur er auður þeirra að mestu til kominn vegna þess að þeir stofnuðu fyrirtæki sem hafa vaxið og orðið verðmætari vegna mikils áhuga stórs hluta jarðarbúa á þeim vörum eða þeirri þjónustu sem þau veita.
Það þarf væntanlega ekki mikið frekari umræðu um þessa framsetningu hjálparsamtakanna þegar þau harma hlutskipti nýútskrifaðra fræðinga frá bestu háskólum heims með þessum hætti.
En gefum okkur að það sé vandamál að nokkrir einstaklingar séu orðnir svo ríkir. Hver er lausnin á því vandamáli?
Aðeins hærri skattar? Einhverjir þessara einstaklinga hafa þegar lýst því yfir að þeir ætli að gefa svo drjúgan hluta sinna auðæfa til mannúðarmála að jafnvel mestu skattheimtumenn væru í vandræðum með að jafna það.
Er ekki megin málið að hinir fátæku geti bætt stöðu sína? Og það hafa þeir svo sannarlega gert á undanförnum áratugum. Meðal annars vegna þess að ýmsir menn hafa auðgast mjög á því að færa fólki nýja og ódýra tækni sem nýtist því til að afla sér upplýsinga, menntunar og viðskiptatækifæra.