Menn eru enn að ræða aflandsfélögin. Margir hafa á þeim miklar skoðanir og fordæma allt sem þeim tengist. Þar er oft margt ofsagt.
Margir telja að það séu tómir glæpamenn sem eiga aflandsfélag. Það er alger misskilningur.
Það er ekki ólöglegt að eiga aflandsfélag, hvort sem það er á Bahamaeyjum, Manhattan eða Bresku Jómfrúreyjum. Það er meira að segja gert ráð fyrir því í skattalögum að það sé heimilt að eiga slík félög. Það eru sérstök eyðublöð með íslenskum skattskýrslum fyrir aflandsfélög. Tekjur af þeim eru skattskyldar á Íslandi og ef menn gefa þær upp til skatts á Íslandi eru skattalögin ekki brotin.
En af hverju stofna menn aflandsfélag ef þær ætla ekki að brjóta lögin?
Aflandsfélög eru þægileg ef menn ætla sér að eiga viðskipti erlendis, fara til dæmis í afmarkaða fjárfestingu í samvinnu við erlenda aðila. Við þær aðstæður þykir mönnum þægilegt að eiga félög sem eru undir alþekktu regluverki og einfalt er að stofna.
Vafalaust skiptir mestu máli fyrir Íslendinga að íslensku bankarnir gerðu mikið af því að stofna slík félög fyrir viðskiptavini sína. Alþjóðleg viðskipti opnuðust mikið og þar með opnuðust möguleikar fyrir fólk á sviðum þar sem það þekkti ekki til. Margt fólk sem átti peninga fól bönkunum umsjón þeirra. Bankarnir, sem opnað höfðu útibú erlendis, opnuðu erlend félög fyrir fólkið og í gegnum þau var fjárfest um allan heim.
Það er mjög ólíklegt að fyrir öllu þessu fólki hafi vakað að brjóta lög og reglur, þegar það fylgdi ráðleggingum sérfræðinganna.
En menn eiga vitaskuld ekki að vera svo einfaldir að halda að öll aflandsfélögin hafi verið stofnuð í löglegum tilgangi. Einhverjir hafa örugglega notað þau til þess að fela eignarhald sitt á verðmætum. Það getur verið gert til að fela verðmæti fyrir skattinum en margt annað kemur til greina. Einhverjir vilja kannski forðast samkeppnisyfirvöld, yfirtökuskyldu eða jafnvel bara makann sem menn vilja ekki skipta eigum með ef skilnaður verður. Einhverjir vilja svo kannski bara forðast forvitin augu. Vilja ekki láta slá því upp í fjölmiðlum hvaða fyrirtæki þeir eiga. Margt af þessu er ólöglegt, annað bara einkamál.
Þegar menn fjalla um aflandsfélög þá ættu menn að forðast að alhæfa. Margir fóru að lögum, aðrir hafa örugglega ekki gert það. Kannski má líkja því að hafa átt aflandsfélag við það að lögreglan stoppi menn við akstur seint á föstudagsnóttu. Einhverjir eru drukknir. Einhverjir óku allt of hratt. Einhverjir eru próflausir. En svo eru margir sem lentu bara í úrtaki og ekkert er athugavert við.