Í ESB-málinu mega ekki vera lausir endar

Nú sitja flokksleiðtogar og reyna að mynda ríkisstjórn. Ef marka má fréttir lekur margt úr viðræðunum og í fjölmiðlana.

Fyrir nokkru var því slegið upp að flokkarnir ætluðu að vekja ESB-drauginn upp að nýju. Svo var það borið til baka. Þar verða að vera skýrar línur. Fullveldi landsins er mikilvægara en dægurmál sem hægt að er að semja um á hverju kjörtímabili fyrir sig. Það er hægt að hækka tryggingagjald á einu kjörtímabili en lækka það á öðru. Það er hægt að fjölga skattþrepum á einu kjörtímabili og fækka þeim á öðru.

En fullveldi landsins glata menn til langframa.

Fari Sjálfstæðisflokkurinn í ríkisstjórn verður að vera ljóst að ESB-draugurinn verði ekki vakinn upp á nýjan leik. Þar væri engan veginn nóg að Sjálfstæðisflokkurinn sjálfur tæki ekki þátt í uppvakningunni, ef svokallaðir samstarfsflokkar gætu gert það með hluta stjórnarandstöðunnar. Ætli Sjálfstæðisflokkurinn í ríkisstjórn með ESB-flokkunum verður að vera ljóst frá upphafi að ESB-málið liggi óhreyft þetta kjörtímabil. Í næstu kosningum geta menn svo reynt að vinna skoðunum sínum fylgi á ný.