Myndaröðin hér að ofan er merkt Samtökum um bíllausan lífsstíl. Myndirnar virðast vera frá árinu 2010. Þar er nokkrum samgöngukostum stillt upp til samanburðar; um það bil 60 bílum, 70 reiðhjólum og einum strætisvagni.
Já er þetta ekki sanngjarnt? Komast ekki 70 manns í strætisvagn og eru ekki menn oft einir á ferð í einkabílnum ógurlega?
Jú, jú, en strætisvagnarnir aka oft nánast tómir um borgina. Ekki virðast til haldbærar tölur um nýtingu þeirra en ágiskanir gera ráð fyrir að á bilinu 10 – 20 farþegar séu í vögnunum að meðaltali.
Til að flytja 70 farþega þarf því 4 – 6 vagna en ekki einn eins og myndin gefur til kynna. Svona ef menn vilja miða við raunveruleikann í stað draumóra um lífsstíl annars fólks.
Strætisvagnarnir eru stórkostlega niðurgreiddir af hinu opinbera. Í ársreikningi Strætós bs. fyrir árið 2015 kemur fram að framlag ríkis og sveitarfélaga standi undir um 70% af rekstrarkostnaði við almenna farþegaflutninga. Á meðan greiða notendur einkabílsins fyrir öll útgjöld hins opinbera við vegaframkvæmdir með notkunargjöldum á eldsneyti og háum sköttum á bílana sjálfa. Í raun er það þannig að bíleigendur greiða einnig fyrir alla gatnagerð undir strætisvagnana og leggja þeim til nokkra milljarða að auki í rekstrarstyrk.
Að lokum má svo nefna að 91 af 93 strætisvögnum gengur fyrir Dieselolíu (ársskýrsla 2015) en til samanburðar er innan við helmingur fólksbíla Dieselknúinn þótt „hreina“ vinstri stjórnin hafi breytt sköttum þannig að fólk kaupi frekar Dieselbíl en bensínbíl. Meirihluti fólksbíla er engu að síður enn bensínknúinn.
Dieselvélar gefa frá sér miklu verri útblástursefni (sót og NOX) en bensínvélar. Engin grein er gerð fyrir þessum útblástursefnum frá strætisvögnunum í „grænu“ bókhaldi félagsins.