Nýr framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins, Halldór Benjamín Þorbergsson, segir í viðtali í viðskiptablaði Morgunblaðsins að allt of lítið aðhald sé nú í ríkisrekstrinum. Afgangur af fjárlögum hafi verið sáralítill sem sé alvarlegt því nú sé efnahagslífið í mikilli uppsveiflu og þá eigi hið opinbera að búa sig undir niðursveiflu sem óhjákvæmilega komi síðar.
Það er mikið til í því að ekki hafi verið nægilegt aðhald í ríkisfjármálunum, þótt enginn vafi sé á að staðan væri verri ef vinstriflokkarnir hefðu stýrt þeim. Ríkisútgjöld hafa verið aukin mjög verulega á mörgum sviðum, án þess að skorið hafi verið niður annars staðar til þess að mæta aukningunni.
Það þarf ekkert að vera að því að auka opinber útgjöld á einum stað, ef dregið er úr útgjöldunum annars staðar á móti. Það sem er slæmt, er þegar menn bæta sífellt í útgjöldin. Hið opinbera er látið færa sig á ný og ný svið og einnig auka eyðsluna á þeim sviðum þar sem það er fyrir.
Vinsrimenn mega yfirleitt ekki heyra minnst á sparnað. Þeir vilja meiri útgjöld og svo á bara að skattleggja. Þeir vilja kreista meira út úr sjávarútveginum, þeir vilja fjölga skattþrepum, þeir vilja hækka skatta á laun, þeir vilja eiginlega hækka alla skatta sem þeir geta.
Vinstrimenn vilja meira að segja sérstaka skatta á einstakar neysluvörur eins og sykur og tóbak og slá þannig tvær flugur í einu höggi, skattleggja fólk og skipta sér af daglegu lífi þess.
Stjórnmálamenn úr öllum flokkum bera ábyrgð á því hvernig opinber útgjöld þenjast út. Þeir gera ekki nóg til þess að draga úr útgjaldaaukningunni. Það er enn ein ástæðan fyrir því að lækka ber skatta verulega. Ekki til þess að halli verði á ríkisrekstri heldur til þess að draga úr opinberri eyðslu. Stjórnmálamönnum finnst miklu betra að eyða en spara. Því fleiri krónur sem koma inn í sköttum, þeim mun fleiri krónum munu stjórnmálamenn eyða. Með skattalækkunum minnka áhrif stjórnmálamanna á daglegt líf borgaranna.