Orkustofnun ríkisins hefur á undanförnum árum sofið á verðinum í loftslagsmálum. Stofnunin hefur brugðist því hlutverki sínu að veita stjórnvöldum faglega ráðgjöf þegar kemur að því að velja leiðir til að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda hér á landi.
Hún hefur til að mynda ítrekað mælt með því að á annað þúsund milljónum króna úr ríkissjóði sé varið til innflutnings á korn-etanóli og öðru lífeldsneyti til íblöndunar í eldsneyti landsmanna. Þessi íblöndun leiðir til aukinnar eyðslu í bílvélum, fleiri ferða á bensínstöðvar og aukins innflutnings á eldsneyti. Eru þá ótalin neikvæð áhrif á umhverfi og fólk af ræktun þeirra jurta sem þarf í framleiðsluna; skógareyðingu, framræslu votlendis og hækkun matarverðs.
Jafnvel þótt menn tryðu því að þessi íblöndun minnkaði losun frá bílum örlítið eru bílar með svo lítinn hluta losunarinnar (innan við 4%) að ávinningurinn væri nær enginn en kostnaðurinn óheyrilegur.
En líklega náði Orkustofnun í gær að finna enn furðulegra baráttumál en lífolíusullið sitt. Þá skeiðaði orkumálastjóri fram í sjónvarpsviðtali í Ríkissjónvarpinu og heimtaði að Íslendingar hættu að skjóta rakettum á loft um áramót. „Sjálfsagt er minni flugeldabrennsla ein af þeim litlu fórnum sem við þurfum að færa“, sagði maðurinn.
Með því að heimfæra þær tölur sem orkumálastjórinn nefnir í jólapistli á vef stofnunar sinnar um útblástur frá flugeldapúðri í Bandaríkjunum má reikna með að af heildarútblæstri gróðurhúsalofttegunda á Íslandi séu flugeldar með um 0,0002% eða 0,2% ef talan er notuð hrá fyrir Ísland.